Erlent

Tveir skipverjar fórust í sjóslysi

Skip sekkur Finnbirch sökk í Eystrasalti á miðvikudag.
Skip sekkur Finnbirch sökk í Eystrasalti á miðvikudag. MYND/nordicphotos/afp

Tveir fórust þegar sænskt fraktskip sökk í aftakaveðri á Eystrasalti seint á miðvikudagskvöldið.

Björgunarmönnum tókst að bjarga þrettán manns um borð í þyrlu, en leit að fjórtánda áhafnarmeðlimnum bar ekki árangur og er hann talinn látinn.

Þyrlan flutti alla þá sem bjargað hafði verið á sjúkrahús í Kalmar í Svíþjóð, og lést einn þeirra þar.

Áhöfnin, sem í voru fjórir Svíar og tíu Filippseyingar, stökk í sjóinn þegar skipið, Finnbirch, sökk milli Gautlands og Svíþjóðar. Aftakaveður var á svæðinu og náðu öldurnar fimm metra hæð, og gerði ölduhæðin björgunarmönnum mjög erfitt fyrir.

Um 260 tonn af olíu eru um borð og óttast sænska landhelgisgæslan að olían leki úr skipinu, segir á fréttavef danska blaðsins Politiken.

Ekki er ljóst hvað olli því að skipið sökk, en það liggur nú á 70 metra dýpi.

"Við getum bara giskað á orsökina, við höfum ekki nægar upplýsingar," sagði Jan Larsen, forstjóri Lindholm Shipping, eiganda Finnbarch.

Skipið var á leið frá Helsinki í Finnlandi til Árósa í Danmörku þegar slysið varð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×