Erlent

Reyna á þolmörk Vesturlanda

Íran Teiknimyndahöfundur frá Marokkó, Abdollah Derkaoui að nafni, bar sigur úr býtum í teiknimyndasamkeppni sem efnt var til í Íran nú í sumar. Frá úrslitunum var skýrt í gær, en viðfangsefni keppninnar var helförin.

„Hvar liggja mörk vestræns tjáningarfrelsis?" var yfirskrift keppninnar, en þema hennar var önnur spurning: „Hvers vegna skyldu Palestínumenn gjalda fyrir söguna af helförinni?"

Myndir í keppnina bárust frá fjölmörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, Ítalíu, Frakklandi og Brasilíu. Margar af myndunum sýna gyðinga misnota hörmungarsögu helfararinnar til þess að kúga Palestínumenn, jafnvel með sambærilegum hætti og þýskir nasistar böðluðust á gyðingum á sínum tíma. Mörgum þykir með því harla lítið gert úr alvöru helfararinnar, ekki síst í ljósi þess að ráðamenn í Íran hafa áður látið í ljósi efasemdir sínar um að helförin hafi nokkru sinni átt sér stað.

„Írönsk stjórnvöld hafa því miður gengið til liðs við hinn klámfengna kór afneitara helfararinnar," hafði til dæmis AP-fréttastofan eftir Mark Regev, talsmanni utanríkisráðuneytisins í Ísrael.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti einnig yfir óánægju sinni með samkeppnina þegar hann var á ferð í Íran nú í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×