Erlent

Ný lög sögð í mótsögn við mannréttindi

Úr Guantanamo-fangabúðunum Óttast er að umdeild lög Bandaríkjamanna um meðferð meintra hryðjuverkamanna brjóti í bága við ýmis alþjóðalög sem Bandaríkjamenn hafa samþykkt.
Úr Guantanamo-fangabúðunum Óttast er að umdeild lög Bandaríkjamanna um meðferð meintra hryðjuverkamanna brjóti í bága við ýmis alþjóðalög sem Bandaríkjamenn hafa samþykkt. MYND/AP

Hin umdeildu lög sem sett voru í Bandaríkjunum á dögunum um réttarstöðu meintra hryðjuverkamanna og að mál þeirra verði sótt fyrir herdómstólum, samræmist ekki alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Þetta er mat Martins Scheinin, sérfræðings Sameinuðu þjóðanna í stöðu mannréttinda í „stríðinu gegn hryðjuverkum“.

Sum ákvæði laganna geta svipt meinta hryðjuverkamenn réttinum til sanngjarnra réttarhalda, segir Scheinin og bendir sérstaklega á hugtakið „ólöglegur og fjandsamlegur bardagamaður“. Þetta hugtak er óþekkt í alþjóðalögum, segir Scheinin, en með lagasetningunni getur forseti Bandaríkjanna ákveðið upp á sitt einsdæmi hverjir falla undir þessa skilgreiningu.

Ólöglegir bardagamenn munu ekki njóta habeas corpus-ákvæðisins, sem kveður á um að menn sitji ekki inni án þess að koma fyrir dómara og sæta ákæru. Þetta, segir Scheinin, er „í augljósri mótsögn“ við Alþjóðasáttmálann um borgaraleg og pólitísk réttindi, sem Bandaríkin fullgiltu árið 1992.

Fulltrúi Bandaríkjanna í Genf svaraði því til að lögin væru þvert á móti gerð „í samráði við bandamenn okkar og sem svar við áhyggjum þeirra“. Lögfræðiráðgjafi bandaríska heimavarnaráðuneytisins sagði einnig að hugtakið „ólöglegur bardagamaður“ væri ekki uppfinning Bush-stjórnarinnar, heldur hefði það verið notað af virtum evrópskum lögspekingum um áraraðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×