Erlent

Ekki fleiri tilraunir í bígerð

Félagar funda Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-il, t.h., hitti kínverska embættismanninn Tang Jiaxuan í Pjongjang á fimmtudag. Myndin er tekin á fundi þeirra í fyrra.
Félagar funda Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-il, t.h., hitti kínverska embættismanninn Tang Jiaxuan í Pjongjang á fimmtudag. Myndin er tekin á fundi þeirra í fyrra. MYND/AP

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-il, sagði ríkisstjórn sína ekki ætla að prófa fleiri kjarnorkuvopn og sagðist harma tilraunina sem gerð var í síðustu viku, kom fram í fréttum suðurkóreskra fjölmiðla í gær. Á leiðtoginn að hafa látið þessi orð falla á fundi með afar hátt settum kínverskum embættismanni, Tang Jiaxuan, á fimmtudag.

Á sama tíma söfnuðust yfir hundrað þúsund manns saman á aðaltorginu í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, til að „fagna vel heppnaðri sögulegri kjarnorku­tilraun“, að sögn ríkisrekinna fjölmiðla landsins.

Samkvæmt fréttum suðurkóresku fjölmiðlanna sagðist Kim vera að íhuga að snúa aftur að samningaborði þjóðanna sex, sem hafa árangurslítið verið að reyna að finna friðsamlega lausn á kjarnorkuáætlun kommúnistaríkisins.

„Ef Bandaríkin gefa svolítið eftir, þá munum við líka gefa svolítið eftir, hvort sem um tvíhliða eða sex-þjóða viðræður er að ræða,“ á Kim að hafa sagt.

Hlé hefur verið á viðræðunum síðan í fyrra, eftir að Norður-Kóreumenn neituðu að taka frekari þátt þegar Bandaríkin hófu að beita kommúnistaríkið efnahagsþvingunum vegna meints peningaþvættis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×