Erlent

Heimild til að túlka Genfarsáttmálann

John Mccain öldungadeildarþingmaður
Leiðtogi andófshóps innan Repúblikanaflokksins segist hafa fengið því framgengt að pyntingar verði ekki framar stundaðar á vegum bandarískra stjórnvalda.
John Mccain öldungadeildarþingmaður Leiðtogi andófshóps innan Repúblikanaflokksins segist hafa fengið því framgengt að pyntingar verði ekki framar stundaðar á vegum bandarískra stjórnvalda. MYND/AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti náði í gær samkomulagi við hóp repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings um frumvarp að lögum um sérstaka herdómstóla, sem eiga að fjalla um mál fanga bandaríska hersins við Guantanamo á Kúbu.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að Bandaríkjaforseti fær lagalega heimild til þess að túlka ákvæði Genfarsáttmálanna eins og honum sjálfum þykir réttast. Á hinn bóginn eru í frumvarpinu skýr ákvæði um það hvað teljist „alvarleg brot" gegn Genfarsáttmálunum, sem ekki eru heimil, og er þar á meðal að finna skilgreiningu á pyntingum og býsna þrönga skilgreiningu á því hvað teljist vera „alvarlegur andlegur sársauki og þjáning".

Bush lýsti í gær ánægju sinni með samkomulagið, sem hann sagði tryggja það að leyniþjónustan CIA gæti áfram „yfirheyrt hættulegustu hryðjuverkamenn heims og náð í leyndarmál þeirra."

Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sagðist á hinn bóginn ánægður með að hafa náð fram því markmiði að verja Genfarsáttmálana. „Það verða engar frekari pyntingar," sagði hann.

Verði frumvarpið samþykkt í þinginu í næstu viku geta repúblikanar verið samstíga í kosningabaráttunni eftir að hafa deilt hart undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×