Erlent

Eigandinn náði að stökkva út úr logandi bifreiðinni

Eldur slökktur í bifreiðinni Fimm bifreiðar skemmdust þegar sprengja sprakk.
Eldur slökktur í bifreiðinni Fimm bifreiðar skemmdust þegar sprengja sprakk. MYND/AP

Nokkrir særðust þegar mikil sprenging varð rétt hjá Vasatorgi í miðborg Gautaborgar í hádeginu í gær. Sprengja sprakk í bifreið, sem gjör­eyðilagðist auk þess sem eldur kviknaði í fjórum öðrum bifreiðum. Sænskir fjölmiðlar segja að sprengjutilræðið hafi beinst gegn eiganda bifreiðarinnar, sem er sagður starfa við veitingahúsarekstur í borginni.

Maðurinn slapp ómeiddur, en hann stökk út úr bifreiðinni strax og sprengingin varð.

Fjölmörg vitni urðu að sprengingunni og var mörgum mjög brugðið. Nokkrir fengu í sig glerbrot og flísar. Einn maður var fluttur á sjúkrahús.

Mikill eldur logaði í bifreiðinni og stóðu eldtungurnar nokkra metra upp í loftið og bárust með vindi í fleiri bifreiðar, en vel gekk að slökkva eldinn þegar slökkvilið kom á staðinn.

Þetta er í annað sinn í þessari viku sem sprengja springur í Gautaborg. Á þriðjudaginn varð sprenging í leigubíl í einu af úthverfum borgarinnar, en enginn slasaðist. Handsprengju hafði verið komið fyrir við eitt af hjólum bifreiðarinnar. Lögreglan í Gautaborg segist hafa grun um að tengsl séu á milli sprenginganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×