Erlent

Talin vera 24.000 ára gömul

Neanderdalsmaður. Talið er að Neanderdalsmenn hafi litið svona út.
Neanderdalsmaður. Talið er að Neanderdalsmenn hafi litið svona út.

Neanderdalsmenn lifðu þúsund árum lengur en áður var talið, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem gerð var í Gíbraltar á Suður-Spáni. Fjallað er um niðurstöðurnar í nýjasta töluhefti vísindatímaritsins Nature.

Litlir hópar Neanderdalsmanna flökkuðu um Gíbraltar og gistu reglulega í stórum helli þar fyrir 28.000 árum, og gætu yngstu ummerkin um þá verið 24.000 ára gömul, að sögn Clive Finlayson frá Gíbraltarsafninu.

Kannski voru þetta hinir síðustu, sagði Finleyson.

Neanderdalsmenn voru litlir, vöðvamiklir veiðimenn sem fyrst komu fram í Evrópu og Vestur-Asíu fyrir um 200.000 árum. Þeir dóu út eftir að nútímamaðurinn flutti sig til Evrópu fyrir um 35.000 til 40.000 árum.

Vísindamenn hafa mikið velt fyrir sér örlögum Neanderdalsmanna og enn er deilt um ástæðu þess að þeir urðu útdauðir. Helstu kenningarnar eru að þeir hafi ekki staðist samkeppnina við nútímamenn, nútímamaðurinn hafi smita þá af sjúkdómi sem dró þá alla til dauða eða að loftlagsbreytingar hafi orðið þeim aldurtila.

Aðrir vísindamenn, sem ekki tóku þátt í rannsókninni, segjast efast um áreiðanleika dagsetninga Finlaysons og félaga, en telja þó ummerkin um Neanderdalsmennina afar merk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×