Erlent

Farmurinn vegur 17,5 tonn

MYND/AP

Geimskutlunni Atlantis var loksins skotið á loft í gær með sex geimfara innanborðs. Leiðangurinn heldur til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar en þetta er fyrsta geimskotið þangað frá því að geimskutlan Columbia fórst á leið þaðan til jarðar í febrúar árið 2003. Sjö geimfarar fórust í slysinu sem átti sér stað sextán mínútum fyrir áætlaðan lendingartíma.

Tilgangur leiðangursins er að halda áfram uppbyggingu geimstöðvarinnar sem hefur legið niðri í þau þrjú og hálft ár sem liðin eru frá Columbiu-slysinu.

Orsök slyssins var sú að brot af harðnaðri einangrunarfroðu féllu af ytra byrði eldsneytistanks geimskutlunnar þegar hún tókst á loft og sködduðu væng skutlunnar. Síðan þá hafa sérfræðingar NASA, geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, unnið að því að koma í veg fyrir að slíkt slys geti hent aftur.

Atlantis flytur einn þyngsta farm sem hefur verið skotið út í geim og vegur 17,5 tonn. Þar á meðal eru tvær sólarrafhlöðuplötur sem munu framleiða raforku fyrir stöðina.

Áætlað er að senda fjórtán leiðangra í viðbót til að ljúka smíði geimstöðvarinnar fyrir árið 2010. Mun NASA þá snúa athygli sinni að tunglinu og mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×