Erlent

Gaza-svæðið minnir helst á fangelsi

Ráðist á þinghúsið. Víðtæk verkföll hafa staðið yfir   á Gaza-svæðinu vegna þess að 165 þúsund opinberir starfsmenn hafa ekki fengið launin sín greidd.
Ráðist á þinghúsið. Víðtæk verkföll hafa staðið yfir á Gaza-svæðinu vegna þess að 165 þúsund opinberir starfsmenn hafa ekki fengið launin sín greidd.

Hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu valda þjáningu og angist íbúa þar, fremur en að skapa vilja til sátta og samninga. Alþjóðlegar refsiaðgerðir einangra Palestínumenn og eru að ganga af efnahag svæðisins dauðum, að mati Karen Abuzayd, eins yfirmanna neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Abuzayd óttast einnig að flestar stoðir samfélagsins séu við það að bresta og segir brýna þörf fyrir alþjóðlegt gæslulið til verndar Palestínumönnum.

Í viðtali við BBC-fréttastofuna reifar Abuzayd ástand mála í Palestínu og minnist á innilokunarkennd fólks sem hefur búið við hernám í 37 ár.

Í grein breska blaðsins Independent, sem birtist í vikunni, er Gaza-svæðinu líkt við fangelsi. Fréttaritari blaðsins segir íbúana við hungurmörk og að verið sé að eyðileggja gjörvallt samfélagið með árásum Ísraelsmanna. Síðan árásirnar hófust seint í júnímánuði, hafa 262 látið lífið, þar af 64 börn og 26 konur. 1.200 hafa særst og um sextíu misst útlimi. Lyf á sjúkrahúsinu eru af skornum skammti, en þriðjungur sjúklinga er á barnsaldri. Síðustu 74 daga hafa verið gerðar 250 loftárásir á svæðinu.

Í vikunni hafa staðið yfir víðtæk verkföll á Gaza-svæðinu vegna þess að 165 þúsund opinberir starfsmenn hafa ekki fengið laun greidd í hálft ár. Forsætisráðherra heimastjórnarinnar lýsti því yfir í gær að ekki stæði til að Hamas-samtökin létu völdin af hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×