Erlent

Segir leynifangelsi nauðsynleg

Guantanamo Fjórtán fangar bætast brátt í hóp þeirra sem fyrir eru í fangelsi bandaríska hersins við Guantanamo á Kúbu.
Guantanamo Fjórtán fangar bætast brátt í hóp þeirra sem fyrir eru í fangelsi bandaríska hersins við Guantanamo á Kúbu. MYND/AP

 George W. Bush Bandaríkjaforseti viðurkenndi í gær í fyrsta sinn tilvist leynilegra fangelsa víða um heim, þar sem leyniþjónustan CIA hefur haldið föngum sem grunaðir eru um hryðjuverkastarfsemi.

Hann sagði þó ekkert hvar þessi fangelsi væru. Hann nefndi nokkra af föngunum á nafn og sagði að fjórtán fangar myndu verða fluttir til fangelsis Bandaríkjahers við Guantanamo á Kúbu, þar sem þeir yrðu sóttir til saka.

Það hefur verið nauðsynlegt að flytja þessa menn í umhverfi þar sem hægt er að halda þeim í leynum, gefa sérfræðingum færi á að yfirheyra þá og, þegar svo ber undir, sækja þá til saka fyrir hryðjuverk, sagði Bush.

Bandarísk stjórnvöld hafa til þessa ekki viljað viðurkenna að þessi leynilegu fangelsi væru til, en þau hafa engu að síður sætt harðri gagnrýni fyrir að starfrækja þau. Ásakanir hafa gengið um að pyntingar hafi verið stundaðar í sumum þessara fangelsa.

Í gær birti jafnframt bandaríski herinn nýja handbók um yfirheyrslur fanga, sem verið hefur í smíðum í meira en ár. Þar eru settar strangar reglur um mannúðlega meðferð fanga, og meðal annars er lagt blátt bann við því að hræða fanga með hundum, hylja höfuð þeirra alveg með hettum og beita svonefndri vatnsbrettaaðferð, sem veldur því að fanganum finnist hann vera að drukkna.

Allar deildir bandaríska hersins þurfa að fara eftir þessum reglum, en leyniþjónustan CIA er þó óbundin af þeim þar sem hún stendur utan hersins. Starfsmenn leyniþjónustunnar hafa að hluta til séð um yfirheyrslur fanga, sem herinn hefur í haldi, meðal annars við Guantanamo á Kúbu og í Abu Graib fangelsinu í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×