Erlent

Vill ekki sjá foreldrana

Vinkonur Natöschu Þrjár fyrrverandi vinkonur Natöschu  í viðtali fyrir utan húsið í smábænum Strasshof norðaustur af Vínarborg þar sem hún var í gíslingu.
Vinkonur Natöschu Þrjár fyrrverandi vinkonur Natöschu í viðtali fyrir utan húsið í smábænum Strasshof norðaustur af Vínarborg þar sem hún var í gíslingu. MYND/AP

Austurríska stúlkan sem fannst í síðustu viku eftir að hafa verið í haldi mannræningja í átta og hálft ár, hefur rétt á að vera látin í friði. Þetta sögðu talsmenn austurrísku lögreglunnar í gær, eftir að foreldrar stúlkunnar kvörtuðu yfir því í fjölmiðlaviðtölum að vera meinað að hitta dótturina endurfundnu.

Foreldarnir, sem skildu skömmu eftir að stúlkan hvarf, hafa aðeins fengið að sjá hana í nokkrar mínútur til að bera kennsl á hana, en hún hefur síðan verið "á öruggum stað" í umsjá sálfræðinga. Talsmenn lögreglu tóku fram í gær að stúlkan væri ekki í haldi. Hún hefði sjálf óskað eftir því að hitta engan núna um helgina, heldur ekki foreldrana.

"Ef Natascha vill fara niður í miðbæ [Vínarborgar] og fá sér kaffi, þá er henni það frjálst," sagði Gerhard Lang, talsmaður rannsóknarlögreglunnar. "Ef hún vill getur hún farið hvert sem henni sýnist," sagði hann.

Natascha Kampusch skaut aftur upp kollinum í síðustu viku og í ljós kom að hinn 44 ára gamli Wolfgang Priklopil hafði rænt henni og haldið í gluggalausu kjallaraherbergi í húsi sínu í allan þennan tíma, frá því hann rændi henni þegar hún var á leið í skóla þann 2. mars 1998. Priklipil fyrirfór sér eftir að hún slapp úr prísundinni. Hún notaði tækifærið til að laumast út þegar hann var upptekinn í símanum.

Reinhard Haller, þekktur sálfræðiprófessor, sagði í útvarpsviðtali að Kampusch yrði nú að læra að treysta aðstandendum sínum og kynnast öryggistilfinningu.

Samkvæmt fjölmiðlafrásögnum var Kampusch óhuggandi er hún frétti að fangari hennar hefði látið lífið. Eftir Haller er haft að Priklopil hafi heilaþvegið stúlkuna. Hún virtist þjást af "Stokkhólms-heilkenninu" á háu stigi, en það er þegar gísl fer að "halda með" fangara sínum og kvað vera algeng sálfræðileg varnarviðbrögð sem gera gísl fangavistina bærilegri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×