Erlent

Seldi hass með pylsum og gosi

Lögreglan í Frederiks­værk á Norður-Sjálandi lét til skarar skríða gegn pylsusala á föstudag. Samkvæmt frétt Politiken hafði lögreglan fylgst með pylsuvagni mannsins í nokkurn tíma enda lék grunur á að fleira en pylsur, remúlaði og gos væri á boðstólum.

Það kom líka á daginn, því í vagninum fannst töluvert magn af hassi og marijúana. Í bakgarði mannsins hafði hann einnig plantað um þrjú hundruð hassplöntum sem þöktu um áttatíu fermetra svæði. Gerði lögreglan alls 210 kílógrömm upptæk af plöntum ásamt 52 pappakössum, fullum af þurrkuðu kannabis, og reiðufé að upphæð rúmlega 1,5 milljónir íslenskra króna. Maðurinn var ekki hnepptur í varðhald en fær líklega skilorðsbundinn dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×