Erlent

Frelsið kostar 2,5 milljónir

Hlynur Sigurðarson, 23 ára Íslendingur sem situr í fangelsi í Brasilíu vegna kókaínsmygls, segist hafa fengið tilboð frá lögfræðingi sínum um að hann geti keypt sér frelsi fyrir tæpar 2,5 milljónir króna. „Það er víst hægt að gera allt í þessu landi með peningum," segir Hlynur. „Þetta er ekki óalgengt hér, dómarinn myndi þá skrifa undir plagg sem segði að ég hefði afplánað mína refsingu í fylkinu og ég gæti þá fengið að fara heim."

Samkvæmt brasilískum lögum á að kæra fanga innan áttatíu daga frá handtöku, en Hlynur segir að sú regla sé ekki virt í landinu. „Maðurinn hérna á móti mér er búinn að sitja inni án dómtöku í fimm ár." Tilboðið mun hafa kveðið á um að Hlynur yrði færður í annað fylki á 81. degi og síðan sleppt.

Lögfræðingurinn hefur einnig hótað að segja upp samningi sínum við Hlyn, því hann hafi enn ekki fengið neina greiðslu fyrir þjónustu sína. Hlynur segist enga peninga eiga, en hann sé að reyna að bjarga þessu með aðstoð vina sinna. „Fjölskyldan vill ekkert tala við mig núna og ég skil það vel. Það er ekki eins og ég sé búinn að haga mér eins og eitthvert ljúfmenni í gegnum tíðina," sagði Hlynur, en hann bar sig nokkuð vel í gærkvöldi, þrátt fyrir erfiðar aðstæður í fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×