Erlent

Ísrael sakað um stríðsglæpi

Eyðilegging Líbönsk kona gengur fram hjá íbúðablokk sem eyðilagðist í stríði Ísraela við Hizbollah á dögunum.
Eyðilegging Líbönsk kona gengur fram hjá íbúðablokk sem eyðilagðist í stríði Ísraela við Hizbollah á dögunum. MYND/AP

 Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sakað ríkisstjórn Ísraels um að hafa framið stríðsglæpi í nýloknu stríði við Hizbollah-samtökin í Líbanon. Segja talsmenn samtakanna að Ísraelsstjórn hafi brotið alþjóðalög þegar hún lét her sinn eyðileggja brýr, vegi og heimili almennings. Tala látinna óbreyttra borgara, víðtækar skemmdir og yfirlýsingar yfirmanna hersins "bendi til þess að eyðileggingin hafi verið vísvitandi og hluti af hernaðaráætlun".

Hafa samtökin farið fram á að Sameinuðu þjóðirnar rannsaki hvort Ísraelsstjórn og Hizbollah-samtökin hafi brotið alþjóðalög.Mark Regev, talsmaður utanríkisráðuneytis Ísraels, sagði land sitt hafa hlýtt lögum. "Ólíkt Hizbollah réðumst við ekki viljandi á líbanska borgara. Þvert á móti, undir afar erfiðum kringumstæðum, reyndum við að vera eins nákvæmir og mögulegt var í árásum á hryðjuverkasamtökin Hizbollah."

Samkvæmt tölu Barnahjálpar SÞ, UNICEF, fórust 1.183 Líbanar í stríðinu, flestir óbreyttir borgarar og var þriðjungur þeirra börn. Um 15.000 líbönsk heimili voru lögð í rúst. Af þeim 160 Ísraelum sem týndu lífi voru hins vegar flestir hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×