Erlent

Fjarvera Mladic óafsakanleg

Carla del Ponte Aðalsaksóknari dómstólsins í Haag skaut föstum skotum að Serbíustjórn í gær.
Carla del Ponte Aðalsaksóknari dómstólsins í Haag skaut föstum skotum að Serbíustjórn í gær. MYND/AP

Réttarhald hófst í gær fyrir Stríðsglæpadómstólnum í Haag í Hollandi yfir sjö mönnum sem voru háttsettir í her Bosníu-Serba og eru ákærðir fyrir meinta hlutdeild þeirra í fjöldamorðunum á um átta þúsundum Bosníu-múslima í bænum Srebrenica. En fjarvera æðsta yfirmanns þeirra, hershöfðingjans Ratko Mladic, varpaði skugga yfir réttarhaldið.

Mladic „ætti að vera fyrir rétti núna,“ tjáði aðalsaksóknari dómstólsins, Carla del Ponte. Í ávarpi sínu við upphaf réttarhaldsins fordæmdi hún getuleysi stjórnvalda í Serbíu við að hafa uppi á Mladic og öðrum eftirlýstum meintum stríðsglæpamönnum. Hún sagði það „óafsakanlegt“ af yfirvöldum í Belgrad að hafa ekki handtekið hann fyrir löngu og framselt til dómstólsins.

„Serbíustjórn er fullfær um að handtaka þessa menn,“ sagði hún. „Hún hefur hingað til einfaldlega neitað að gera það.“

Ráðamenn í Belgrad halda því fram að þeir séu að reyna sitt ýtrasta til að hafa hendur í hári Mladic, en sannað þykir að hann dvelji þar í landi. Að serbneskum yfirvöldum skyldi hafa mistekist að framselja hann til þessa hefur þegar orðið til þess að Evrópusambandið hefur frestað um óákveðinn tíma undirbúningsviðræðum að framtíðarinngöngu landsins í sambandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×