Erlent

Geldur fyrir stríðsstuðning

Joe Lieberman Eftir þrjú farsæl kjörtímabil fyrir Demókrataflokkinn þarf hann nú að bjóða fram einn síns liðs.
Joe Lieberman Eftir þrjú farsæl kjörtímabil fyrir Demókrataflokkinn þarf hann nú að bjóða fram einn síns liðs. MYND/AP

Joe Lieberman, öldungadeildarþingmaður demókrata í þrjú kjörtímabil, náði ekki kosningu í forkjöri Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í gær. Hann verður því ekki þingframbjóðandi flokksins í Connecticut-ríki fyrir nóvemberkosningarnar, heldur þarf að bjóða fram í eigin nafni. Fyrir einungis þremur árum var Lieberman varaforsetaefni flokksins.

Stjórnmálaskýrendur útskýra þetta vinsældahrap með því að Lieberman hafi stutt innrás Bandaríkjamanna í Írak, en andstæðingur hans, Ned Lamont, hamraði mjög á andstöðu sinni við stríðsrekstur í kosningabaráttunni. Einnig var kunningsskapur Liebermans við núverandi Bandaríkjaforseta notaður á móti honum og frægt myndband, þekkt sem „Koss dauðans“, sýnt margsinnis í baráttunni. Í myndbandinu smellir George W. Bush kossi á kinn Liebermans.

Ned Lamont er auðkýfingur með sáralitla reynslu af stjórnmálum. Hann rekur sjónvarpsstöð og fékk sér til fylgis yngri og frjálslyndari demókrata úr svokallaðri „netrótarhreyfingu“. Hann mun þakka velgengnina baráttu rekinni á netinu, en þar fór fram mikil nýliðun og kusu nær helmingi fleiri í forkosningunum nú en venjan hefur verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×