Erlent

Fimm þúsund bílar sukku

Sökkvandi flutningaskip Nærri fimm þúsund bifreiðar voru um borð í skipinu þegar skipverjarnir yfirgáfu það.
Sökkvandi flutningaskip Nærri fimm þúsund bifreiðar voru um borð í skipinu þegar skipverjarnir yfirgáfu það. MYND/AP

Tuttugu og þriggja manna áhöfn var í gær bjargað um borð í þyrlur af sökkvandi flutningaskipi skammt frá Aleuteyjum, suður af Alaska. Um borð í skipinu eru fimm þúsund nýjar bifreiðar sem átti að flytja frá Japan til Kanada.

„Þetta er eins og gríðarstórt bílastæði að innan,“ sagði Richard Reichenbach, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar sem kom skipverjunum til bjargar. „Ég held að það versta sem hefði getað gerst væri að bílarnir losnuðu og færu að hlaðast hver ofan á annan.“

Skipið heitir Cougar Ace, er skráð í Singapúr en útgerðin er í eigu Japana.

Seint á sunnudagskvöld byrjaði skipið að hallast á bakborða. Skipverjarnir sendu strax út neyðarkall, en næsta skip bandarísku strandgæslunnar var í sólarhrings siglingarfjarlægð.

Á mánudaginn kom flugvél á staðinn en þá var skipið nærri komið á hliðina. Hallinn var orðinn áttatíu gráður. Þremur björgunarbátum var varpað úr flug­vélinni, en þeir sukku áður en áhöfninni tókst að ná í þá. Fjórða björgunarbátnum var einnig varpað niður, en hann eyðilagðist í fallinu.

Í gær tókst loks að bjarga áhöfninni um borð í þrjár þyrlur og var flogið með hana norður til Adak-eyju, þar sem íbúar færðu þeim hlý föt, teppi, mat og kaffi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×