Erlent

Nútímaþrælabúðir starfræktar á Ítalíu

Vinnan gjörir yður frjáls Inngangurinn frægi í Auschwitz-fangabúðirnar í Póllandi. Sagt er að þrælahaldararnir hafi sótt sér fyrirmynd í fangabúðir nasista.
Vinnan gjörir yður frjáls Inngangurinn frægi í Auschwitz-fangabúðirnar í Póllandi. Sagt er að þrælahaldararnir hafi sótt sér fyrirmynd í fangabúðir nasista. MYND/Nordicphotos/getty images

Pólskir og ítalskir lögreglumenn frelsuðu um eitt hundrað Pólverja úr þrælahaldi á Ítalíu í mánuðinum. Tuttugu og fimm voru handteknir í lögregluaðgerðinni, en hún var árangur hálfs árs langrar rannsóknar.

Handtökurnar voru á grundvelli mansals og frelsisskerðingar.Pólverjunum mun hafa verið lofað 450-600 króna tímakaupi við ávaxtatínslu á Ítalíu áður en þeir yfirgáfu Pólland en þegar á hólminn var komið reyndist kaupið einungis ein evra á klukkustund, eða 94 krónur. Að auki var verkamönnunum komið fyrir í óhrjálegum vinnubúðum og gert að greiða fyrir mat og leigu. Þetta, auk ferðakostnaðar og umboðslauna upp á 21.000 krónur, steypti mörgum þeirra í skuldir. „Starf“ nokkurra kvennanna reyndist vera vændi.

Einstaklingar sem ekki sættu sig við þetta máttu þola ofbeldi; barsmíðar og nauðganir. Nokkrir munu hafa framið sjálfsmorð. Eftirlitsmenn vinnubúðanna kölluðu hver annan „kapó“, en það heiti var notað um fangaverði í útrýmingarbúðum nasista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×