Innlent

Björgunarbeiðni vegna skútu afturkölluð

Neyðarskeyti frá neyðarsendi um borð í ástralskri skútu barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga kl. 6:47 í morgun. Skútan var staðsett suðvestur af Nassasuaq á Suður Grænlandi og var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar um tíuleitið. Skútan fannst að lokum og björgunarbeiðnin var afturkölluð áður en Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar fór í loftið.

Ástralska skútan, Fine Tolerance, var í aftaka veðri 60 sjómílur suðvestur af Grænlandi og því innan grænlenskrar leitar- og björgunarlögsögu. Björgunarstöðin í Grönnedal á Grænlandi hafði reynt að ná sambandi við áhöfn skútunnar en án árangurs. Björgunarmiðstöð í Halifax hafði því næst samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og óskaði eftir upplýsingum vegna björgunnar og leitar en áætlað var að björgunavél frá Halifax kæmi ekki fyrr en eftir hádegi á svæðið þar sem skútan var talin vera.

Björgunarstöðin í Grönnedal óskaði svo eftir Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, til leitar á svæðinu um tíuleitið í morgun. Áhöfn Sýnar, ásamt flugbjörgunarsveitinni var kölluð út. Rétt fyrir hádegi þegar Sýn var að fara til leitar var björgunarbeiðnin afturkölluð en þá hafði skútan fundist og allt var með felldu um borð. Talið er að sjór hafi farið yfir neyðarsendirinn um borð í skútunni með þeim afleiðingum að hann fór í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×