Innlent

Telur sig vanhæfan

Bogi Nilson ríkissaksóknari hefur sagt sig frá Baugsmálinu þar sem hann sé vanhæfur til að fjalla um málið. Ríkslögreglustjóri óskaði eftir því að Ríkissaksóknari fjallaði um málið, í kjölfar dóms hæstaréttar. Ríkissaksóknari tilkynnti dómsmálaráðherra um ákvörðun sína í gær en hjá KPMG endurskoðun starfa tveir synir hans og einn bróðir. Þegar Fréttastofa ræddi við Boga Nilson í fyrradag taldi hann sig ekki vanhæfan til að fjalla um málið. Páll Hreinsson sérfræðingur í stjórnsýslulögum tók undir það í gær. Bogi segir hinsvegar að hann hafi síðar orðið var við að óhlutdrægni hans væri dregin í efa. Hann telji miklu skipta að fullt traust ríki við meðferð málsins. Bogi Nilson ríkissaksóknari segir það mikilvægt að ríkissaksóknari njóti trausts og sérstaklega í almennum málum. Hann segist hafa orðið var við að sumir væru þeirrar skoðunnar að hann ætti að víkja sæti vegna fjölskyldutengsla. Bogi sagðist þó ekki geta nefnt sérstaklega hvaðan sá orðrómur kom. Bogi skrifaði því til ráðherra og mældist til þess að einhver annar yrði fenginn til verksins og þá enginn undirmanna hans hjá embættinu enda væru þeir að hans mati einnig vanhæfir. Bogi segir það grundvallareglu að aðstoðamenn embætta teljist vanhæfir sé niðurstaðan sú að yfirmenn þeirra séu fundnir vanhæfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×