Innlent

Dómur gæti legið fyrir í janúar

Dómur í Baugsmálinu, í Héraðsdómi, gæti í fyrsta lagi legið fyrir um miðjan janúar næstkomandi. Baugsmálið var þingfest í héraðsdómi, í gær, og ákveðið að milliþinghald verði tuttugasta október næstkomandi. Þar verður farið yfir hvernig málið stendur, bæði af hendi ákæranda og verjenda og ákveðið, með hliðsjón af því, hvenær aðalmeðferð málsins hefst. Ekki er talið líklegt að það verði fyrr en í nóvember. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sagði í samtali við fréttastofuna að ef takast eigi að ljúka aðalmeðferð málsins fyrir áramót megi hún ekki hefjast síðar en fimmtánda nóvember, þar sem málið sé mikið að vöxtum og geti tekið allt að fjórar vikur í flutningi. Eftir að aðalmeðferð lýkur skal dómur kveðinn upp innan fjögurra vikna, sem gæti þá orðið um miðjan janúar. Ef málinu verður svo vísað til Hæstaréttar þarf ekki að búast við endanlegri niðurstöðu fyrr en næsta haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×