Sport

Blikastúlkur tapa fyrstu stigunum

Eftir 10 sigurleiki í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu kom að því að Breiðablik tapaði stigum. KR-ingar bundu enda á sigurgöngu Breiðabliks í gærkvöldi þegar liðin gerðu markalaust jafntefli. Landsliðsmarkvörðurinn Þóra B. Helgadóttir átti enn einn stórleikinn og hún kom í veg fyrir sigur KR. Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni hefur Breiðablik fjögurra stiga forystu á Val en Blikaliðið á eftir að spila við liðin sem eru í þremur neðstu sætum deildarinnar. Einn annar leikur var í kvennafótboltanum í gærkvöldi, FH sigraði Stjörnuna 2-1. Kristín Sigurðardóttir kom FH yfir en Harpa Þorsteinsdóttir jafnaði metin en það var síðan Sif Atladóttir sem skoraði sigurmarkið. FH og Stjarnan eru með 9 stig í deildinni. Í kvöld mætast Keflavík og ÍBV en leik liðanna var frestað í gærkvöldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×