Innlent

Vilja að Gill verði látinn laus

Íslendingarnir tveir sem tóku þátt í mótmælaaðgerðunum á Nordica-hótelinu ásamt Englendingnum Paul Gill telja gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir Gill óskiljanlegan og ranglátan. Meðferðinni á Gill verður mótmælt við dómsmálaráðuneytið klukkan tvö í dag. Í fundarboði segir að ætlunin sé að mótmæla gæsluvarðhaldsúrskurðinum yfir Paul Gill og því að hann fái aðra meðferð en hin tvö sem einnig voru handtekin eftir að hafa slett grænum vökva á fundargesti álráðstefnunnar sem haldin var á Nordica-hótelinu. Full ástæða sé til að mótmæla þessari niðurstöðu og krefjast þess að Gill verði einnig látinn laus þannig að jafnt verði tekið á málum þremeninganna. Mótmælahópurinn telur að í gæsluvarðhaldsúrskurðinum felist hróplegt ranglæti og hann sé óskiljanlegur. Arna Ösp Magnúsardóttir og Ólafur Páll Sigurðsson, sem tóku þátt í aðgerðunum með Paul Gill á hótelinu, sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast vilja vekja athygli á því misræmi og misrétti í tengslum við málsmeðferð Englendingsins sem hafi verið handtekinn fyrir sama verknað og þau. Arna og Ólafur segja að öll hafi þau átt jafnan þátt í mótmælaaðgerðunum og þau séu því slegin yfir þeirri tilraun yfirvalda að gera Paul Gill að blóraböggli. Þau velta því fyrir sér í yfirlýsingunni hvort það að hann sé útlendingur hafi eitthvað með það að gera og ef svo sé sé það klárt brot á réttindum hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×