Innlent

Grunaður um kynferðislegt ofbeldi

Reykvíkingur á fertugsaldri er grunaður um að hafa beitt fjórar ungar stúlkur kynferðislegu ofbeldi. Á heimili mannsins fundust tugir barnaklámsmynda í tölvu hans. Stúlkurnar sem grunur leikur á að maðurinn hafi brotið gegn voru á aldrinum þriggja til þrettán ára þegar brotin voru framin að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík. Nokkur ár eru síðan fyrsta brotið er talið hafa átt sér stað en fyrningarfrestur er þó ekki liðinn. Meint brot voru gegn dætrum mannsins og stúlkum sem þær þekktu. Fyrsta kæran barst lögreglu í mars eftir að ein stúlknanna tjáði forráðamönnum sínum frá athæfi mannsins. Við rannsókn málsins vaknaði grunur um að maðurinn hefði framið fleiri brot og bárust lögreglunni þrjár kærur til viðbótar. Kært er fyrir kynferðislega misneytingu þar sem maðurinn er sagður hafa snert stúlkurnar eða látið þær snerta sig á ósæmilegan hátt. Við rannsókn á heimili mannsins fundust í tölvu hans tugir barnaklámsmynda. Sigurbjörn Víðir segir rannsókn málsins vera á lokastigi. Maðurinn hefur ekki áður komið við sögu lögreglu. Í ársskýrslu lögreglunnar í Reykjavík sem kynnt var í dag kemur fram að 128 kynferðisbrot hafi verið kærð á síðasta ári. Eins segir þar að kærunum fjölgi stöðugt á milli ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×