Innlent

Fékk tveggja ára fangelsi

Jón Árni Rúnarsson, fyrrverandi skólastjóri Rafiðnaðarskólans, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir stórfelldan fjárdrátt á tímabilinu 1994 til 2001. Peningarnir sem Jón Árni var fundinn sekur um að hafa dregið að sér voru af endurmenntunargjaldi sem vinnuveitendur í rafiðnaði greiddu. Upphæðin nam tæpum 28 milljónum króna í heildina. Í dómsuppkvaðningu sagði að brotin hefðu verið gerð með einbeittum brotavilja og verið skipulögð. Jón Árni hefði nýtt sér þá stöðu sem skapaðist með hraðri útþenslu í menntakerfinu á umræddum tíma. Að auki kom fram að Jóni Árna hefði ekki tekist að bæta fyrir það fjárhagslega tjón sem gjörðir hans hefðu valdið. Málið hefur verið lengi fyrir dómstólum, en því var skotið aftur í héraðsdóm eftir að Hæstiréttur komst að því að ekki hefði verið hægt að taka afstöðu til málsins á gefnum forsendum. Jón Árni hafði áður verið dæmdur sýkn saka, en úrskurðurinn var ógildur í Hæstarétti og sendur niður í héraðsdóm. Hæfileg refsing þótti vera tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×