Innlent

Gæsluvarðhaldið framlengt

Gæsluvarðhald yfir fylgdarmanni fjögurra kínverskra ungmenna sem komu hingað á leið til Bandaríkjanna á dögunum hefur verið framlengt um viku. Maðurinn er grunaður um skipulagt mansal. Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, var varðhaldið framlengt þar sem málið er enn í rannsókn. Stúlkurnar þrjár sem komu með manninum eru nú á vegum barnaverndaryfirvalda enda allar undir lögaldri. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi mannsins, segir manninn ekki hafa mótmælt framlengingunni og býst fastlega við því að kæra verði gefin út og dæmt í málinu strax í næstu viku, slíkur sé vaninn í málum sem þessum. Maðurinn hefur enn ekki játað sök. Ef um skipulagt mansal er að ræða hafa íslensk stjórnvöld nýverið undirgengist Evrópusáttmála um að hefta mansal. Þar er sérstaklega tiltekið að sýna skuli réttindum fórnarlamba mansals og aðstæðum þeirra sérstaka virðingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×