Skoðun

Er til austur-evrópsk mafía?

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Um síðustu helgi völdu Evrópubúar hið árlega Eurovision lag. Það var hin gríska Helena Paparizou sem bar sigur úr býtum en veðbankar voru einmitt búnir að spá henni sigri.

Íslendingar þurftu að keppa í undankeppninni fimmtudaginn áður og komust ekki áfram. Lentu í sextánda sæti. Það skemmtilega er að ekki einn einasti Íslendingur gat ímyndað sér að Selma Björnsdóttir, fulltrúi Íslands, kæmist ekki áfram. Það var ekki að ræða það og minnti múgæsingin eftir keppnina einna helst á þá staðfestu Íslendinga árið 1986 að Gleðibankinn væri besta lag í Evrópu og myndi mala samkeppni sína í álfunni. En allt kom fyrir ekki. Lagið lenti í sextánda sæti.

Í staðinn fyrir að taka fallinu með reisn þurftu Íslendingar nú eins og alltaf að finna einhvern sökudólg. Og hver lá beinast við? Jú, auðvitað Austur-Evrópa.

Það er ekkert launungamál að Íslendingar, og jafnvel fleiri Suður-Evrópubúar, líta á Austur-Evrópu sem boðflennu í keppninni. “Þetta fólk er ekki Evrópubúar,” heyrir maður oftar en ekki þegar Eurovision keppnin stendur sem hæst. Auðvitað er “þetta fólk” alveg jafn miklir Evrópubúar og við. Það er bara öðruvísi. Og þar af leiðandi er tónlistin öðruvísi. Og snýst Eurovision ekki um tónlistarsmekk?

Drumbusláttur og þjóðlegir tónar einkenndu framlög Evrópulandanna og þá sérstaklega Austur-Evrópu því þeirra þjóðlagahefð er auðvitað mun sterkara en okkar hér á litla Íslandi. Hér er MTV, Popptíví og hvað allt þetta heitir búið að tröllríða öllu og auðvitað eru lögin sem við sendum í keppnina eftir því. Samsuða frá Britney Spears og Christinu Aquilera. Rosalega frumlegt eða hitt þó heldur. Vissulega er sigurlagið í ár líka samsuða frá Britney og Christinu. Bara góð samsuða. Grípandi samsuða. Þó að ég hafi fengið áfall þegar ég heyrði það í fyrsta skipti þá get ég ekki neitað því að ég er með það á heilanum meira eða minna allan daginn. Og ég hef heyrt það í mesta lagi tvisvar.

Ég veit ekki með restina af Íslendingum en ég er búin að fá mig fullsadda af samsæriskenningum kynna Eurovision með hvaða land gefur hverjum stig og hverjum ekki. Gísli Marteinn Baldursson missti sig gjörsamlega í þessum samsæriskenningum um síðustu helgi þegar austur-evrópsku löndin gáfu grönnum sínum fullt hús stiga á víxl. Allt í einu var Gísli Marteinn búinn að gleyma tólf stigunum sem Íslendingar gáfu Norðmönnum, tíu stigin sem Íslendingar gáfu Danmörku, tólf stigunum sem Danir fengu frá Norðmönnum, tíu stigunum sem Danmörk fékk frá Svíþjóð, tólf stigunum sem Danir gáfu Norðmönnum og tíu stigunum sem Svíþjóð gaf Norðmönnum. Munurinn er bara að austur-evrópsku löndin eru fleiri og stærri og gefa hvort öðru væntanlega stig því þau hafa smekk fyrir lagasmíðum hvors annars. Tyrkland gaf meira að segja Grikkjum, erkifjendum sínum, tólf stig. Hvernig útskýrir Gísli Marteinn það? Og fyrrum stríðshrjáðar þjóðir á Balkanskaganum lögðu ágreininga sína til hliðar og kusu hvora aðra í sátt og samlyndi. Ég sé ekkert nema gott og fallegt við það -- ég veit ekki með ykkur hin.

Það er sorglegt hvernig Íslendingar taka tapi í Eurovision. Vissulega var Selma Björnsdóttir flott á sviðinu í ár og það var hvorki búningurinn né sviðsframkoma sem varð henni að falli heldur lagið. Þetta snýst auðvitað allt um lagið. Eurovision lagið. Sem íslenska þjóðin á auðvitað að fá að kjósa sjálf en ekki einhverjir Sjálfstæðismenn út í bæ. Svo virðist það alltaf gleymast að Eurovision tónlist er bara tónlist. Það er engin formúla. Ekkert Eurovision lag. Íslendingar eiga að vera stoltir af sinni hefð og setja metnað í framlag sitt líkt og frændur okkar í Austur-Evrópu. Við skulum leita aftur til síðustu aldar og blanda því gamla við hið nýja. Gamaldags rímur og kassagítar myndi örugglega svínvirka og færa okkur gullið.

Ef við nennum hins vegar ekki að leggja höfuðið í bleyti og leggja metnað í keppnina sem virðist vera okkur öll svo kær einhverra hluta vegna þá gætum við kannski hafið útflutning á saltfiski til Svartfjallalands, selt Bosníumönnum ull eða sett skyr á markað í Makedónía. Þá myndum við mæta sterk til leiks með “frændur” okkar okkur við hlið í keppninni að ári.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×