Sport

Aðalsteinn tekur við Stjörnunni

Aðalsteinn Eyjólfsson er á leið til Íslands á ný eftir ársdvöl í Þýskalandi með TuS Weibern. Hann hefur komist að samkomulagi við Stjörnuna um að stýra kvennaliði félagsins næstu tvö árin. Aðalsteinn er enn staddur í Þýskalandi þar sem hann er að ganga frá starfslokasamningi við Weibern en hann áætlar að flytja til Íslands á ný í lok mánaðarins."Það er nánast frágengið tveggja ára samkomulag við Stjörnuna og ég skrifa undir samning þegar ég kem heim," sagði Aðalsteinn við Fréttablaðið í gær en af hverju ákvað hann að fara til Stjörnunnar? "Þetta er mitt heimafélag þar sem ég ólst upp og svo er leikmannahópurinn mjög spennandi og það verður gaman að vinna með honum."Aðalsteinn býst við því að halda nánast öllum mannskapnum sem er fyrir hendi og hann mun að öllum líkindum fá góðan liðsstyk í Jónu Margréti Ragnarsdóttur sem lék undir hans stjórn í Þýskalandi í vetur. Hún er Stjörnukona að upplagi og heimildir Fréttablaðsins herma að hún sé á leið heim í Garðabæinn. Stjarnan stefnir á að taka þátt í Evrópukeppni næsta vetur og því vaknar sú spurning hvort Stjarnan ætli að fá sér erlenda leikmenn."Ég treysti núverandi hópi fullkomlega fyrir verkefninu og að öllu óbreyttu sé ég ekki ástæðu til þess að fá erlenda leikmenn," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson, tilvonandi þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×