Innlent

Skilorð fyrir að berja konu

Maður fékk þriggja mánaða fangelsisdóm skilorðsbundinn í þrjú ár í Hæstarétti í gær. Dóminn fékk hann fyrir árás á eiginkonu sína. Dómurinn er nær samhljóða fyrri dómi Héraðsdóms Reykjaness, en hann vakti mikið umtal því látið var að því liggja að konan hefði verið valdur að bræði mannsins, en hann sakaði hana um framhjáhald. "Við refsimat í málinu verður að líta til þess, að samkvæmt frásögn kæranda hefur sambúð hennar og ákærða verið stormasöm allt frá því að þau giftust [...] í þessu tilviki leggur ákærður hendur á kæranda í mikilli bræði og hníga gögnin frekar að því, að kærandi kunni að hafa valdið henni,"  sagði þá í dómi héraðsdóms. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skilaði séráliti, en hann vildi kveða upp 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm. Hann sagði að fallast mætti á að opinber umfjöllun um brot mannsins "þar sem meðal annars var birt mynd af honum undir nafni, hafi verið einhliða og ósanngjörn og til þess fallin að valda honum þjáningum og skaða" og vildi meta honum það til refsilækkunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×