Innlent

Önnur alvarleg líkamsárás

Lögreglan á Akureyri hefur lokið rannsókn á líkamsárás þar sem sautján ára piltur var lokkaður upp í bíl og lokaður í farangursgeymslu þar sem ráðist var á hann með ofbeldi. Árásarmennirnir óku með piltinn út út Akureyrarbæ og hann sleginn þar sem hann lá í myrkri farangursgeymslunni, auk þess sem honum var ógnað með kúbeini. Að því loknu var aftur ekið með piltinn til Akureyrar þar sem honum var kippt úr farangursgeymslunni. Hann var sleginn, sparkað í andlit hans og trampað á höfði hans eftir að hann féll í götuna. Því næst var hann rifinn úr fötunum og dreginn nakinn eftir malarlögðu bílaplani. Eftir þetta allt saman tóku árásarmennirnir föt, síma og peninga af piltinum og óku á brott. Pilturinn stóð eftir hálfnakinn og berfættur með svöðusár á baki og komst við illan leik í miðbæinn. Þegar hann reyndi að sæta færis til að komast inn á leigubifreiðastöðina BSO kom skólafélagi hans að honum fyrir tilviljun og veitti honum aðstoð. Pilturinn segist aðeins hafa unnið sér til saka að hafa boðið systur eins árásarmannanna upp í bíl og hefur það verið staðfest af þeim sem grunaðir eru. Árásarmennirnir hafa allir komið við sögu fíkniefnamála hjá lögreglunni á Akureyri. Þeir hafa viðurkennt að hafa sammælst um að gefa rangan framburð af málsatvikum þegar þeir voru fyrst yfirheyrðir hjá lögreglu, en skriður komst á málið í tengslum við rannsókn fíkniefnamála sem lögreglan á Akureyri hefur unnið að að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×