Innlent

Annþór vill málið aftur í hérað

Verjandi Annþórs Kristjáns Karlssonar krafðist þess fyrir Hæstarétti í gær að máli hans yrði vísað aftur heim í hérað. Í nóvemberlok voru Annþór og Ólafur Valtýr Rögnvaldsson dæmdir í fangelsi fyrir að ráðast inn á heimili mjaðmagrindarbrotins manns og ganga í skrokk á honum, sá fyrrnefndi í tveggja og hálfs árs og hinn í tveggja ára fangelsi. Maðurinn var meðal annars handleggsbrotinn, en fyrir dómi breytti hann framburði sínum frá því sem hann sagði lögreglu og kvað handleggsbrotið hafa átt sér stað fyrr um daginn. Dómaranum þótti sú skýring ekki trúverðug. Við dómhaldið í gær sagði skipaður verjandi Annþórs, Karl Georg Sigurbjörnsson, það álit Annþórs að kalla hefði til þurft tvo meðdómendur til að meta sannleiksgildi orða mannsins sem ráðist var á, vegna kúvendingarinnar sem varð í framburði hans. Til vara krafðist hann sýknu í málinu, en þrautavara að Annþór yrði dæmdur til vægustu refsinga. Hilmar Ingimundarson, verjandi Ólafs Valtýs, krafðist sýknu fyrir skjólstæðing sinn, en til vara að refsingin yrði milduð og heimfærð upp á aðra grein hegningarlaga en í ákæru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×