Agnesisminn 17. apríl 2005 00:01 Birtist í DV 16. apríl 2005 Starfa stjórnmálamenn samkvæmt bestu samvisku? Ég hef fjallað um stjórnmál í mörg ár en er litlu nær um svarið við þessari spurningu. Kannski er ástæðan sú að ég hef aldrei komist - og mun aldrei komast - inn á fundi þar sem eru teknar stórar ákvarðanir; þar sem alvöru verðmætum er skipt. Svoleiðis er í verkahring pólitíkusa sem oftastnær eru aldir upp í stjórnmálaflokkum frá unga aldri og þekkja ekki annað umhverfi. Telja þeir sig vera að starfa í þjóðarhag - til dæmis þegar hérumbil öllum öðrum sýnist að þeir séu að hlaða undir vini sína? Eða finnst þeim kannski af heilum hug að umræddum verðmætum sé einmitt best borgið hjá vinunum? Á að svindla á okkur? Ég hef verið að pæla í þessu í tengslum við einkavæðingu Símans. Þjóðin virðist nefnilega alveg sannfærð um að rangt verði haft við. Hér á vefnum var til dæmis gerð könnun þar sem 87 prósent svarenda töldu að ekki verði eðlilega staðið að sölu Símans. Viðbrögð ráðamanna eru hafa verið mikil og innileg móðgun; þeir eru sárir yfir því að einhverjum skuli detta svonalagað í hug. Samt er það svo að sporin hræða. Í vikunni spratt upp fyrirbæri sem ég vil nefna "agnesisma". Í Frakklandi var upp úr 1950 til stjórnmálahreyfing sem var kölluð "poujadismi", nefnd eftir manni sem hét Pierre Poujade. Þetta var hreyfing litla mannsins, smáborgara, smákaupmanna – það sem heitir á frönsku petits commerçants – meðal annars stefnt gegn stórfyrirtækjum. Það ætti kannski að setja smá ugg að valdamönnum þegar Agnes þrammar fremst í flokki lítilla fjárfesta. Græddur er geymdur eyrir! Einkavæðingin á Íslandi varð mjög seint. Á fyrrihluta tíunda áratugsins voru menn í raun ekki komnir lengra en að Síldarverksmiðju og Skipaútgerð ríkisins. Þrátt fyrir eindregna markaðsstefnu var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei að flýta sér að einkavæða. Stjórnmálamennirnir undu hag sínum vel í kerfi ríkisbanka þar sem flokksgæðingar spiluðu með peninga sem þeir áttu ekkert í. Flokkarnir komu sínum mönnum fyrir í bankaráðunum en almenningur fékk að blæða - það má segja að hann hafi systematískt verið féflettur. Lánsfé var tæpast að hafa nema út á pólitíska vild; það var beinlínis hlægilegt að spara þótt reynt væri að telja manni trú um annað. Dæmi um svindlið var að slagorð stærsta bankans var "græddur er geymdur eyrir". Þetta var borið á borð fyrir börn á tíma óðaverðbólgu - er furða þó maður sé tortrygginn? Sósíalískur spillingarbúskapur Hér skapaðist aldrei hefð fyrir einkareknum bönkum - eftir að Íslandsbanki varð gjaldþrota 1929 varð til kerfi með þremur sterkum ríkisbönkum. Kannski má segja að Ísland hafi verið sósíalistaríki? Að minnsta kosti finnst manni eins og Vinstri grænir sjái eftir þessum tíma. Hér var gengið mun lengra í haftastefnu en víðast í Evrópu; meira að segja á hinum sósíaldemókratísku Norðurlöndum var blómlegur markaðsbúskapur miðað við hér. Það er eiginlega ekki fyrr en með frjálshyggjubylgjunni á níunda áratugnum - stefnu Thatchers og Reagans - að fara að koma upp alvöru kröfur um einkavæðingu. Áður höfðu þeir sem vildu losa þessi tök verið taldir sérvitringar - líkt og Eyjólfur Konráð Jónsson sem oftast var afgreiddur með því að hann tilheyrði sértrúarsöfnuði. Nú komu loks fram ungir menn sem litu á frjálsan markað sem alvöru hugsjón. Á þeim árum var tímaritið Frelsi eins og himnasending. Langlundargeð Íslendinga Lýsingar á kerfinu sem hér var við lýði um áratugaskeið má lesa í hinum stórmerkilegu bókum Örnólfs Árnasonar, Á slóð Kolkrabbans og Bankabókinni. Þetta var gamaldags klíkusamfélag sem byggðist á því að flokksvald skammtaði og skaffaði. Mönnum datt eiginlega ekki í hug að þetta gæti verið öðruvísi. Það er furðulegt hvað almenningur lét sér lynda að ráðamenn sýndu honum mikla fyrirlitningu. Maður spyr: Hvers vegna var ekki gerð uppreisn? Vilmundur Gylfason reis upp gegn þessu staðnaða og spillta kerfi, hann þekkti innviði þess betur en flestir - var alinn upp innan um þá sem höfðu völdin. Það var sífellt hamrað á því að Vilmundur væri reikull og ruglaður, en Helgarpósturinn, fjölmiðillinn sem reyndi að afhjúpa kerfið með hugmyndir hans að vopni, var kallaður óábyrgt sorpblað. Ef gömlum Helgarpóstum er flett rennur upp fyrir manni mynd af kerfi sem var svo spillt að það væri vonandi óhugsandi í dag. Helmingaskiptin Tónn helmingaskiptanna var gefinn í hermanginu þar sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn deildu með sér gróðanum. Sýstemið teygði sig svo út um bankana og embættismannakerfið. Stundum fékk Alþýðuflokkurinn að vera með; af því eimir ennþá í skipan seðlabankastjóra þar sem situr einn sem er merktur Sjálfstæðisflokknum, einn úr Framsókn og svo einn sem kratar geta talið sinn mann. Þetta kerfi er verðugt rannsóknarefni fyrir alvöru sagnfræðinga; það gæti orðið ein merkasta stúdía á íslensku samfélagi á tuttugustu öld. Stundum hafa helmingaskiptin reyndar verið rekin enn lengra aftur - allt frá því að Ólafur Thors og Jónas frá Hriflu settust saman í bankaráð Landsbankans 1936. Þá þótti hafa tekist samkomulag um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hættu að skemma hvor fyrir öðrum í atvinnulífinu - loka á aðgang skjólstæðinga hins. Sigur frjálshyggjunnar Ungu tyrkirnir í Sjálfstæðisflokknum voru alvöru byltingarmenn sem brunnu í andanum. Þeir hægðu þó verulega á sér þegar þeir komust nálægt völdunum. Einkavæðingin hér er svo síðbúin að hún er langt á eftir bæði Austur-Evrópu og Skandinavíu. Það er sagt að Síminn sé síðasta stóra ríkissímafyrirtækið í Evrópu sem verður einkavætt; annars staðar þykir út í hött að ríkið standi í slíkum samkeppnisrekstri. Áður má þó segja að frjálshyggjumennirnir hafi unnið sinn stærsta sigur. Kjarni hugmynda þeirra er að ekkert virki nema það sé í einkaeigu. Ein forvitnilegasta hugmyndafræðilega umræða í heiminum hin síðari ár er um einkavæðingu almenninga. Hér birtist hún aðallega í deilunum um fiskistofnana. Þar má staðhæfa að frjálshyggjan hafi haft algjöran sigur; það tókst að koma fisknum í sjónum í einkaeigu áður en nokkur uggði að sér. Kvótakerfið er varla á förum. Það fer smátt og smátt að verða sérviskuskoðun að hægt sé að taka þann gjörning til baka. Rússnesk einkavæðing Það er heil vísindagrein hvernig staðið skuli að einkavæðingu. Viðskiptablaðið vitnar í einn mesta einkavæðingarsinna allra tíma, Vaclav Klaus, fyrrverandi forsætisráðherra Tékklands. Pólitík hans var að senda öllum landsmönnum hlutabréf í pósti. Í Rússlandi var að hluta til reynt að nota svipaða aðferð, einkavæðingarmennirnir Gaidar og Tsjubais létu senda út bréfsnepla sem voru ígildi eignar í fyrirtækum. En gamla kerfið var tregt og sterkt og á sama tíma töldu þeir sig neyðast til að gera samning við andskotann – kerfiskarla sem vildu ætluðu sér stóra sneið af kökunni við hrun kommúnismans. Kannski er ekki alveg út í bláinn þegar menn líkja atburðunum hér við rússneska einkavæðingu – sjálf Agnes hefur einmitt hvatt landsmenn til að rísa upp til að þeir "njóti arðsins af eigin köku". Annars muni stjórnvöld, flokksgæðingar og milljarðamæringar "ræna okkur eina ferðina enn". Kennitölufárið Umræðan um aðferðafræði einkavæðingarinnar hérlendis hefur verið í meira lagi mótsagnakennd. Fyrsta kastið var dreifð eignaraðild lausnarorðið; hún var úr sögunni eftir kennitöluæðið sem greip um sig þegar fyrst var byrjað að selja bankana. Davíð Oddsson reiddist mjög – eftir á að hyggja var þó varla annað á ferðinni en að almenningur, fólk sem hafði lítið vit á viðskiptum, vildi reyna að tryggja sér lítinn en öruggan hlut í ábatanum. Aftur reiddist forsætisráðherrann þegar óvelkomnir aðilar, Orca-hópurinn með "götustráka" eins og Jón Ólafsson og Jón Ásgeir, hrifsuðu til sín FBA. Þá var ákveðið að hefjast handa við að einkavæða Símann; þar átti almenningur, starfsmenn og litlir fjárfestar að fá að koma að – sá áhugi gufaði upp þegar netbólan sprakk stuttu eftir aldamótin. Íslenskir ólígarkar Eftir þetta var tal um dreifða eignaraðild varla að finna nema í leiðurum Morgunblaðsins. Nú skaut upp kollinum nýyrði – kjölfestufjárfestar. Íslenskir ólígarkar voru mættir á svæðið til að taka yfir ríkisfyrirtækin. Steingrími Ara Arasyni, grandvörum ráðuneytismanni, var svo ofboðið að hann sagði sig úr einkavæðingarnefndinni – hefur reyndar ekki enn viljað segja frá því sem gerðist þar innan dyra. Viðskiptablaðamaðurinn Agnes orðar þetta svona í Morgunblaðsgreininni frægu: "Við létum það yfir okkur ganga, án þess að heyrðist múkk, að þjóðarbankarnir Búnaðarbanki og Landsbanki, væru einkavæddir, afhentir pólitískt réttum aðilum, á sama silfurfatinu, á spottprís, og nú eru þeir hinir sömu rétt völdu, milljarðamæringar; en ætlum við að láta það yfir okkur ganga, að enn ein þjóðareignin, sem malar gull og gersemi, verði afhent pólitískt réttvöldum, á sama fatinu, án þess að í okkur heyrist svo mikið sem múkk."Kjartan enn í bankaráðinu Það var svosem ekki hægt að efast um að Björgólfarnir ættu nóga peninga. Þeir voru nýbúnir að selja bruggverksmiðju í Pétursborg; fyrir þá var ríkisbanki á Íslandi eins og skiptimynt. Sumir kaflar í síðustu skáldsögu Þráins Bertelssonar eru í raun ekki verri heimild um þetta en hvað annað. Altént þurfti Þráinn ekki að skálda upp að framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins, sem sat í bankastjórninni meðan bankinn var í ríkiseigu, fékk að sitja þar áfram eftir einkavæðingu - og situr enn. Sjónarspil S-hópsins Vandinn var hins vegar sá að vinir Framsóknarflokksins áttu ekki nógan pening. Sambandið var löngu farið á hausinn. Þess vegna var gengið í að redda hagstæðu lánsfé; til dæmis fékkst ágætt lán í Landsbankanum stuttu áður en hann komst í einkaeigu. Svo var farið í skollaleik í kringum þýskan banka. Þegar samkomulagið um sölu Búnaðarbankans var gert í nóvember 2002 birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem Davíð Oddsson, Valgerður Sverrisdóttir og fleiri lýsa yfir ánægju með "erlenda þátttöku". Svo gufar þessi útlendi banki barasta upp - það hefur verið orðað svo að sennilega hafi hann verið "framhandleggurinn á íslenskum aðila". Þetta var sjónarspil, vandlega sviðsett, eins og reyndar enginn annar en Sverrir Hermannsson benti á í grein á þessum tíma. Gamli landsbankastjórinn þekkti handbragðið hjá leifunum af Sambandinu. Mogginn birti fræga fréttamynd af Finni Ingólfssyni og Ólafi í Samskip að setjast inn í bíl eftir að hafa gengið frá Búnaðarbankadílnum - þekktur maður úr viðskiptalífinu sagði síðar við mig að þetta hefði minnt á atriði úr bíómynd sem nefnist Snatch. Hrói Höttur á Mogganum Einhverjum kann að finnast það fyndið að fréttastjóri gamla Moggans stígi fram eins og Hrói Höttur og segi stórkapítalistum og stjórnarherrum stríð á hendur. Fái til þess leyfi af blaðinu - að vísu launalaust. Agnesarhreyfingin hefur náð furðulega mikilli útbreiðslu í þessari viku. Þetta er uppreisn sem kemur beint upp úr grasrótinni. Almenningur hefur óþægilega tilfinningu gagnvart viðskiptalífinu; að það sé núorðið bara leikvöllur fyrir þá stóru og ríku. Litlum fjárfestum hefur verið skóflað nánast skipulega út af markaðnum; þar eru aðallega fáir og stórir leikmenn að skiptast á bréfum sem hafa óútskýranlega hátt gengi. Sjávarútvegsfyrirtækin eru á bak og burt úr kauphöllinni - og þar með ein veigamesta röksemdin fyrir kvótakerfinu. Og á sama tíma er farið að tíðkast óþolandi mikið bukk og beygingar fyrir auðmönnum, ekki síst í fjölmiðlum. Ríkisstjórnin í hættu Spurningin er hvort þessi hreyfing muni hreinlega koma í veg fyrir að Síminn verði seldur þeim sem stjórnarforingjarnir höfðu handvalið. Þjóðin grunar þá um græsku. Tortryggnin er svo mikil að þeir geta ekki látið eins og hún sé ekki til; það þýðir ekki að hrópa bara upp um gróusögur. Með lítilli grein hefur Agnes náð að þrengja vald stjórnmálamannanna. Þeir ættu að vera svolítið hræddir við þetta. Annars er aldrei að vita nema hreyfingin breytist í stjórnmálaflokk. Því skal altént spáð að ríkisstjórnin sjálf gæti verið í hættu ef hún tekur ekki mark á agnesistunum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Blaðagreinar Silfur Egils Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Birtist í DV 16. apríl 2005 Starfa stjórnmálamenn samkvæmt bestu samvisku? Ég hef fjallað um stjórnmál í mörg ár en er litlu nær um svarið við þessari spurningu. Kannski er ástæðan sú að ég hef aldrei komist - og mun aldrei komast - inn á fundi þar sem eru teknar stórar ákvarðanir; þar sem alvöru verðmætum er skipt. Svoleiðis er í verkahring pólitíkusa sem oftastnær eru aldir upp í stjórnmálaflokkum frá unga aldri og þekkja ekki annað umhverfi. Telja þeir sig vera að starfa í þjóðarhag - til dæmis þegar hérumbil öllum öðrum sýnist að þeir séu að hlaða undir vini sína? Eða finnst þeim kannski af heilum hug að umræddum verðmætum sé einmitt best borgið hjá vinunum? Á að svindla á okkur? Ég hef verið að pæla í þessu í tengslum við einkavæðingu Símans. Þjóðin virðist nefnilega alveg sannfærð um að rangt verði haft við. Hér á vefnum var til dæmis gerð könnun þar sem 87 prósent svarenda töldu að ekki verði eðlilega staðið að sölu Símans. Viðbrögð ráðamanna eru hafa verið mikil og innileg móðgun; þeir eru sárir yfir því að einhverjum skuli detta svonalagað í hug. Samt er það svo að sporin hræða. Í vikunni spratt upp fyrirbæri sem ég vil nefna "agnesisma". Í Frakklandi var upp úr 1950 til stjórnmálahreyfing sem var kölluð "poujadismi", nefnd eftir manni sem hét Pierre Poujade. Þetta var hreyfing litla mannsins, smáborgara, smákaupmanna – það sem heitir á frönsku petits commerçants – meðal annars stefnt gegn stórfyrirtækjum. Það ætti kannski að setja smá ugg að valdamönnum þegar Agnes þrammar fremst í flokki lítilla fjárfesta. Græddur er geymdur eyrir! Einkavæðingin á Íslandi varð mjög seint. Á fyrrihluta tíunda áratugsins voru menn í raun ekki komnir lengra en að Síldarverksmiðju og Skipaútgerð ríkisins. Þrátt fyrir eindregna markaðsstefnu var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei að flýta sér að einkavæða. Stjórnmálamennirnir undu hag sínum vel í kerfi ríkisbanka þar sem flokksgæðingar spiluðu með peninga sem þeir áttu ekkert í. Flokkarnir komu sínum mönnum fyrir í bankaráðunum en almenningur fékk að blæða - það má segja að hann hafi systematískt verið féflettur. Lánsfé var tæpast að hafa nema út á pólitíska vild; það var beinlínis hlægilegt að spara þótt reynt væri að telja manni trú um annað. Dæmi um svindlið var að slagorð stærsta bankans var "græddur er geymdur eyrir". Þetta var borið á borð fyrir börn á tíma óðaverðbólgu - er furða þó maður sé tortrygginn? Sósíalískur spillingarbúskapur Hér skapaðist aldrei hefð fyrir einkareknum bönkum - eftir að Íslandsbanki varð gjaldþrota 1929 varð til kerfi með þremur sterkum ríkisbönkum. Kannski má segja að Ísland hafi verið sósíalistaríki? Að minnsta kosti finnst manni eins og Vinstri grænir sjái eftir þessum tíma. Hér var gengið mun lengra í haftastefnu en víðast í Evrópu; meira að segja á hinum sósíaldemókratísku Norðurlöndum var blómlegur markaðsbúskapur miðað við hér. Það er eiginlega ekki fyrr en með frjálshyggjubylgjunni á níunda áratugnum - stefnu Thatchers og Reagans - að fara að koma upp alvöru kröfur um einkavæðingu. Áður höfðu þeir sem vildu losa þessi tök verið taldir sérvitringar - líkt og Eyjólfur Konráð Jónsson sem oftast var afgreiddur með því að hann tilheyrði sértrúarsöfnuði. Nú komu loks fram ungir menn sem litu á frjálsan markað sem alvöru hugsjón. Á þeim árum var tímaritið Frelsi eins og himnasending. Langlundargeð Íslendinga Lýsingar á kerfinu sem hér var við lýði um áratugaskeið má lesa í hinum stórmerkilegu bókum Örnólfs Árnasonar, Á slóð Kolkrabbans og Bankabókinni. Þetta var gamaldags klíkusamfélag sem byggðist á því að flokksvald skammtaði og skaffaði. Mönnum datt eiginlega ekki í hug að þetta gæti verið öðruvísi. Það er furðulegt hvað almenningur lét sér lynda að ráðamenn sýndu honum mikla fyrirlitningu. Maður spyr: Hvers vegna var ekki gerð uppreisn? Vilmundur Gylfason reis upp gegn þessu staðnaða og spillta kerfi, hann þekkti innviði þess betur en flestir - var alinn upp innan um þá sem höfðu völdin. Það var sífellt hamrað á því að Vilmundur væri reikull og ruglaður, en Helgarpósturinn, fjölmiðillinn sem reyndi að afhjúpa kerfið með hugmyndir hans að vopni, var kallaður óábyrgt sorpblað. Ef gömlum Helgarpóstum er flett rennur upp fyrir manni mynd af kerfi sem var svo spillt að það væri vonandi óhugsandi í dag. Helmingaskiptin Tónn helmingaskiptanna var gefinn í hermanginu þar sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn deildu með sér gróðanum. Sýstemið teygði sig svo út um bankana og embættismannakerfið. Stundum fékk Alþýðuflokkurinn að vera með; af því eimir ennþá í skipan seðlabankastjóra þar sem situr einn sem er merktur Sjálfstæðisflokknum, einn úr Framsókn og svo einn sem kratar geta talið sinn mann. Þetta kerfi er verðugt rannsóknarefni fyrir alvöru sagnfræðinga; það gæti orðið ein merkasta stúdía á íslensku samfélagi á tuttugustu öld. Stundum hafa helmingaskiptin reyndar verið rekin enn lengra aftur - allt frá því að Ólafur Thors og Jónas frá Hriflu settust saman í bankaráð Landsbankans 1936. Þá þótti hafa tekist samkomulag um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hættu að skemma hvor fyrir öðrum í atvinnulífinu - loka á aðgang skjólstæðinga hins. Sigur frjálshyggjunnar Ungu tyrkirnir í Sjálfstæðisflokknum voru alvöru byltingarmenn sem brunnu í andanum. Þeir hægðu þó verulega á sér þegar þeir komust nálægt völdunum. Einkavæðingin hér er svo síðbúin að hún er langt á eftir bæði Austur-Evrópu og Skandinavíu. Það er sagt að Síminn sé síðasta stóra ríkissímafyrirtækið í Evrópu sem verður einkavætt; annars staðar þykir út í hött að ríkið standi í slíkum samkeppnisrekstri. Áður má þó segja að frjálshyggjumennirnir hafi unnið sinn stærsta sigur. Kjarni hugmynda þeirra er að ekkert virki nema það sé í einkaeigu. Ein forvitnilegasta hugmyndafræðilega umræða í heiminum hin síðari ár er um einkavæðingu almenninga. Hér birtist hún aðallega í deilunum um fiskistofnana. Þar má staðhæfa að frjálshyggjan hafi haft algjöran sigur; það tókst að koma fisknum í sjónum í einkaeigu áður en nokkur uggði að sér. Kvótakerfið er varla á förum. Það fer smátt og smátt að verða sérviskuskoðun að hægt sé að taka þann gjörning til baka. Rússnesk einkavæðing Það er heil vísindagrein hvernig staðið skuli að einkavæðingu. Viðskiptablaðið vitnar í einn mesta einkavæðingarsinna allra tíma, Vaclav Klaus, fyrrverandi forsætisráðherra Tékklands. Pólitík hans var að senda öllum landsmönnum hlutabréf í pósti. Í Rússlandi var að hluta til reynt að nota svipaða aðferð, einkavæðingarmennirnir Gaidar og Tsjubais létu senda út bréfsnepla sem voru ígildi eignar í fyrirtækum. En gamla kerfið var tregt og sterkt og á sama tíma töldu þeir sig neyðast til að gera samning við andskotann – kerfiskarla sem vildu ætluðu sér stóra sneið af kökunni við hrun kommúnismans. Kannski er ekki alveg út í bláinn þegar menn líkja atburðunum hér við rússneska einkavæðingu – sjálf Agnes hefur einmitt hvatt landsmenn til að rísa upp til að þeir "njóti arðsins af eigin köku". Annars muni stjórnvöld, flokksgæðingar og milljarðamæringar "ræna okkur eina ferðina enn". Kennitölufárið Umræðan um aðferðafræði einkavæðingarinnar hérlendis hefur verið í meira lagi mótsagnakennd. Fyrsta kastið var dreifð eignaraðild lausnarorðið; hún var úr sögunni eftir kennitöluæðið sem greip um sig þegar fyrst var byrjað að selja bankana. Davíð Oddsson reiddist mjög – eftir á að hyggja var þó varla annað á ferðinni en að almenningur, fólk sem hafði lítið vit á viðskiptum, vildi reyna að tryggja sér lítinn en öruggan hlut í ábatanum. Aftur reiddist forsætisráðherrann þegar óvelkomnir aðilar, Orca-hópurinn með "götustráka" eins og Jón Ólafsson og Jón Ásgeir, hrifsuðu til sín FBA. Þá var ákveðið að hefjast handa við að einkavæða Símann; þar átti almenningur, starfsmenn og litlir fjárfestar að fá að koma að – sá áhugi gufaði upp þegar netbólan sprakk stuttu eftir aldamótin. Íslenskir ólígarkar Eftir þetta var tal um dreifða eignaraðild varla að finna nema í leiðurum Morgunblaðsins. Nú skaut upp kollinum nýyrði – kjölfestufjárfestar. Íslenskir ólígarkar voru mættir á svæðið til að taka yfir ríkisfyrirtækin. Steingrími Ara Arasyni, grandvörum ráðuneytismanni, var svo ofboðið að hann sagði sig úr einkavæðingarnefndinni – hefur reyndar ekki enn viljað segja frá því sem gerðist þar innan dyra. Viðskiptablaðamaðurinn Agnes orðar þetta svona í Morgunblaðsgreininni frægu: "Við létum það yfir okkur ganga, án þess að heyrðist múkk, að þjóðarbankarnir Búnaðarbanki og Landsbanki, væru einkavæddir, afhentir pólitískt réttum aðilum, á sama silfurfatinu, á spottprís, og nú eru þeir hinir sömu rétt völdu, milljarðamæringar; en ætlum við að láta það yfir okkur ganga, að enn ein þjóðareignin, sem malar gull og gersemi, verði afhent pólitískt réttvöldum, á sama fatinu, án þess að í okkur heyrist svo mikið sem múkk."Kjartan enn í bankaráðinu Það var svosem ekki hægt að efast um að Björgólfarnir ættu nóga peninga. Þeir voru nýbúnir að selja bruggverksmiðju í Pétursborg; fyrir þá var ríkisbanki á Íslandi eins og skiptimynt. Sumir kaflar í síðustu skáldsögu Þráins Bertelssonar eru í raun ekki verri heimild um þetta en hvað annað. Altént þurfti Þráinn ekki að skálda upp að framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins, sem sat í bankastjórninni meðan bankinn var í ríkiseigu, fékk að sitja þar áfram eftir einkavæðingu - og situr enn. Sjónarspil S-hópsins Vandinn var hins vegar sá að vinir Framsóknarflokksins áttu ekki nógan pening. Sambandið var löngu farið á hausinn. Þess vegna var gengið í að redda hagstæðu lánsfé; til dæmis fékkst ágætt lán í Landsbankanum stuttu áður en hann komst í einkaeigu. Svo var farið í skollaleik í kringum þýskan banka. Þegar samkomulagið um sölu Búnaðarbankans var gert í nóvember 2002 birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem Davíð Oddsson, Valgerður Sverrisdóttir og fleiri lýsa yfir ánægju með "erlenda þátttöku". Svo gufar þessi útlendi banki barasta upp - það hefur verið orðað svo að sennilega hafi hann verið "framhandleggurinn á íslenskum aðila". Þetta var sjónarspil, vandlega sviðsett, eins og reyndar enginn annar en Sverrir Hermannsson benti á í grein á þessum tíma. Gamli landsbankastjórinn þekkti handbragðið hjá leifunum af Sambandinu. Mogginn birti fræga fréttamynd af Finni Ingólfssyni og Ólafi í Samskip að setjast inn í bíl eftir að hafa gengið frá Búnaðarbankadílnum - þekktur maður úr viðskiptalífinu sagði síðar við mig að þetta hefði minnt á atriði úr bíómynd sem nefnist Snatch. Hrói Höttur á Mogganum Einhverjum kann að finnast það fyndið að fréttastjóri gamla Moggans stígi fram eins og Hrói Höttur og segi stórkapítalistum og stjórnarherrum stríð á hendur. Fái til þess leyfi af blaðinu - að vísu launalaust. Agnesarhreyfingin hefur náð furðulega mikilli útbreiðslu í þessari viku. Þetta er uppreisn sem kemur beint upp úr grasrótinni. Almenningur hefur óþægilega tilfinningu gagnvart viðskiptalífinu; að það sé núorðið bara leikvöllur fyrir þá stóru og ríku. Litlum fjárfestum hefur verið skóflað nánast skipulega út af markaðnum; þar eru aðallega fáir og stórir leikmenn að skiptast á bréfum sem hafa óútskýranlega hátt gengi. Sjávarútvegsfyrirtækin eru á bak og burt úr kauphöllinni - og þar með ein veigamesta röksemdin fyrir kvótakerfinu. Og á sama tíma er farið að tíðkast óþolandi mikið bukk og beygingar fyrir auðmönnum, ekki síst í fjölmiðlum. Ríkisstjórnin í hættu Spurningin er hvort þessi hreyfing muni hreinlega koma í veg fyrir að Síminn verði seldur þeim sem stjórnarforingjarnir höfðu handvalið. Þjóðin grunar þá um græsku. Tortryggnin er svo mikil að þeir geta ekki látið eins og hún sé ekki til; það þýðir ekki að hrópa bara upp um gróusögur. Með lítilli grein hefur Agnes náð að þrengja vald stjórnmálamannanna. Þeir ættu að vera svolítið hræddir við þetta. Annars er aldrei að vita nema hreyfingin breytist í stjórnmálaflokk. Því skal altént spáð að ríkisstjórnin sjálf gæti verið í hættu ef hún tekur ekki mark á agnesistunum.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun