Sport

Aldrei neitt gert á Ítalíu

Roberto Mancini knattspyrnustjóri Inter Milan er hoppandi fúll út í UEFA vegna refsingar þeirrar sem félagið var úrskurðuð í gær föstudag vegna ólátanna á Meistaradeildarleiknum gegn AC Milan í vikunni. Inter var dæmt til að leika næstu 4 heimaleiki sína í Evrópukeppni fyrir luktum dyrum en næstu tveir leiki á eftir þeim verða svokallaðir skilorðsleikir þar sem félagið getur fengið á sig álíka refsingu haldi stuðningsmenn liðsins sér ekki á mottunni í þeim leikjum. Auk þess var félagið dæmt til peningasektar upp á 16 milljónir króna. "Það er aðeins eitt sem fer í taugarnar á mér og það er að í hvert sinn sem svona hlutir gerast þá koma siðapostularnir fram með yfirlýsingar sínar. Lítið sem ekkert hefur verið gert til að koma í veg fyrir þetta en mörg orð hafa verið látin falla. Við getum og ættum að gera eitthvað meira en aldrei er nokkurn tímann gert á Ítalíu." sagði Mancini og gagnrýnir aðgerðir ítalska knattspyrnusambandsins í kjölfar ólátanna á þriðjudag. Í vikunni var kynnt reglubreyting í ítölsku deildinni þess efnis að dómari megi flauta leik af um leið og einhverju er kastað út á völlinn og leikurinn skuli þá dæmdur því liði tapaður 3-0, sem ber ábyrgð á viðkomandi stuðningsmönnum. "Við breytum ekki hlutunum á einni nóttu. Það getur alltaf einhver sem er ekki stuðningsmaður Inter mætt með grjót eða slíkt og kastað inn á völlinn á heimaleikjum okkar og við sitjum í súpunni." sagði Mancini.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×