Innlent

Peningur hvarf af reikningum

Tæplega 600 þúsund krónum var stolið af tveimur debetkortareikningum íslenskra hjóna þegar þau voru á skíðaferðalagi á norður Ítalíu í mars. Fyrir nokkrum dögum tóku Kristmann Kristmannsson og eiginkona hans eftir því að töluvert vantaði á debetreikninga þeirra beggja. Töluverðar upphæðir höfðu þá verið teknar út af kortunum á Ítalíu eftir að þau komu heim. Alls voru 16 færslur á hvoru korti sem hver um sig var 300 evrur. Stundum hafði verið tekið út af kortunum nokkrum sinnum á dag. Kristmann telur að kortin hljóti að hafa verið afrituð í hraðbanka sem þau hjónin reyndu bæði að nota án árangurs. Að öllum líkindum hafi þessi hraðbanki verið til þess ætlaður að ná strikamerkjum og leyninúmerum. Kristmann segir nauðsynlegt að vara fólk við en töluvert af Íslendingum var statt í bænum á sama tíma. Þórður Jónsson, sviðsstjóri kortaútgáfu Vísa, segir fá slík mál koma upp á hverju ári. Samt hljótist af þeim tugmilljón króna tap, en það lendir á kortafyrirtækjum að borga. Þórður segir slíkt kortafals hafa færst í aukana undanfarin ár erlendis en ekki sé vitað dæmi um að slíkt eigi sér stað á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×