Sport

Sagan ekki með Inter

Roberto Manchini hefur fulla trú á að sínir menn í Inter geti gert hið ómögulega og náð að sigra granna sína í AC Milan í Meistaradeildinni. AC hefur tveggja marka forystu eftir fyrri leik liðanna og þegar árangur þeirra er skoðaður, verður að teljast harla ólíklegt að Inter nái að leggja þá að velli. AC Milan hefur ekki tapað fyrir Inter í síðustu 9 leikjum liðanna og Inter hefur ekki náð að skora mark á móti þeim í þremur viðureignum þeirra á leiktíðinni. AC Milan hefur ennfremur aðeins fengið á sig þrú mörk í allan vetur í Meistaradeildinni og hafa ekki fengið á sig meira en eitt mark í neinni keppni síðan snemma í janúar. Inter þarf að skora þrjú mörk til að komast áfram í undanúrslitin. "Fótboltinn er óútreiknanlegur og óvæntir hlutir eru daglegt brauð. Ef við höfum fulla trú á sjálfum okkur, getur allt gerst í leiknum og maður hefur séð annað eins og tveggja marka forskot fjúka í fótboltanum," sagði Manchini brattur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×