Erlent

Margt fyrirmenna við útför páfa

Margt fyrirmenna verður við útför Jóhannesar Páls páfa á föstudaginn. Á meðal þeirra sem boðað hafa komu sína eru George Bush Bandaríkjaforseti, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, Jacques Chirac, forseti Frakklands, Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, Yoriko Kawaguchi, fyrrverandi forsætisráðherra Japans, Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, að ónefndum Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra Íslands, eins og greint var frá á Vísi fyrr í dag.

Af kóngafólki ber helst að nefna Karl Bretaprins, sem frestaði brúðkaupi sínu til að vera viðstaddur útförina, Juan Carlos Spánarkonung og Soffíu konu hans, Karl Gústav Svíakonung og Silvíu drottningu og Sonju Noregsdrottningu en Haraldur konungur kemst ekki því hann er að jafna sig eftir hjartaaðgerð.

Útför páfa hefst klukkan átta að íslenskum tíma á föstudagsmorgun og er búist við að gríðarlegur mannfjöldi muni fylgja þessum virta leiðtoga til grafar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×