Erlent

ESB samþykkir líklega Wolfowitz

Evrópusambandið hefur gefið grænt ljós, eða svo gott sem, á að Paul Wolfowitz verði næsti forstjóri Alþjóðabankans. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir háttsettum mönnum innan ESB eftir að Wolfowitz kom fyrir stjórn sambandsins í morgun til að svara spurningum um stefnu sína og framtíðarsýn. Ákvörðun um nýjan forstjóra bankans á að liggja fyrir á morgun. Vangaveltur voru um að Evrópusambandið myndi ekki samþykkja Wolfowitz. Hann hefur undanfarin misseri gegnt stöðu aðstoðarvarnarmálaráðherra innan Bandaríkjastjórnar og er afar umdeildur í Evrópu vegna hlutverks síns í að styðja við Íraksstríðið. Hefð er fyrir því að Bandaríkjamenn útnefni forseta bankans en Evrópubúar stjórnarformann. Wolfowitz hefur sjálfur sagst gera sér grein fyrir því að tilnefning hans sé umdeild en segist ákafur stuðningsmaður þess að uppræta fátækt í heiminum og hefur heitið miklu samráði við Evrópulönd um stefnumótun bankans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×