Innlent

Brugðist við verðbólguógn

Seðlabankinn ætlar að hækka stýrivexti sína um 0,25 prósentustig á þriðjudaginn eftir páska. Þá verða vextirnir komnir í níu prósent en í maí í fyrra voru þeir 5,3 prósent. Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri sagði á fundi með blaðamönnum að eftirspurn færi vaxandi og bankinn gripi til þessara aðgerða nú til að koma í veg fyrir að verðbólga hækki síðari hluta árs 2006. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólga lækki á næstu misserum og verði komin nálægt 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans í lok ársins. Birgir Ísleifur segir að viðskiptahallinn í ár verði um tólf prósent en það er meiri viðskiptahalli en nokkru sinni fyrr. Seðlabankinn segir að breytingar á fasteignalánamarkaði hafi valdið því að verðbólguhorfur hafi versnað verulega. "Hörð samkeppni bankanna og Íbúðalánasjóðs á fasteignaveðlánamarkaði hefur stuðlað að hröðum útlánavexti sem ekki sér fyrir endann á," sagði Birgir Ísleifur. Hann gagnrýndi bankanna fyrir að fara of geyst í útlánaaukningu og sagði jafnframt að endurskoða mætti hlutverk Íbúðalánasjóðs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×