Viðskipti innlent

Hagnaður Hampiðjunnar eykst mjög

Hagnaður Hampiðjunnar á síðasta ári var 276 milljónir króna eða tæpum 120 milljónum meiri en árið 2003. Hagnaðurinn fyrir afskriftir og hrein fjármagnsgjöld (Ebidta) nam 496 milljónum króna samanborið við 420 milljónir árið 2003. Hrein fjármagnsgjöld námu 38 milljónum króna til tekna samanborið við 13 milljónir til gjalda árið 2003. Meðtalið í þeim lið eru hlutdeildarafkoma í afkomu HB Granda hf. og nemur tekjufærsla vegna þess 58 milljónum í rekstrarreikningi. Hagnaður fyrir skatta og hlutdeild minnihluta nam 313 milljónum króna en var 210 milljónir árið áður. Rekstrartekjur Hampiðju samstæðunnar námu 4.392 milljónum króna árið 2004 en voru 4.386 milljónir árið áður. Meðtalið í rekstrartekjum eru 93 milljónir sem voru hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna sem voru 20 milljónir króna árið 2003. Heildareignir samstæðunnar voru kr. 6.368 milljónir í árslok. Skuldir námu 3.701 milljón kr. og eigið fé nam kr. 2.667 milljónum króna, en af þeirri upphæð eru 476 milljónir hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin með eigin fé, var í árslok 42% af heildareignum samstæðunnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×