Hið innhverfa úthverfi 28. febrúar 2005 00:01 Í 101 Reykjavík er margs konar miðja: þar býr margt skemmtilegt fólk og margt ríkt fólk og margt mjög einkennilegt fólk. Það er farsæl blanda. Þetta fólk býr í höllum eða hjöllum: það er líka fín blanda. Í 101 er eitthvað í loftinu. Þar skynjar maður titring af möguleika á því að þarna gæti þrifist mannlíf og þarna hafi þrifist mannlíf; hér á þessu horni hafi staðið Sæfinnur á sextán skóm á sínum tíma og Benedikt Gröndal á sínum, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Magnús Stephensen... í þessu hverfi er lágur ymur af sögu, þarna er samhengi sem mann langar til að skynja, þarna hefur alltaf verið sambýli höfðingja, smælingja og listamanna: þessi samsetning er inntak hverfisins. Almennt er 101 talið vera innhverfið: Gjörvallt Ísland er þá "úthverfin" og "úti á landi". Maður finnur þennan tón í skrifum 101-inga eftir menningarnótt. Fólkið sem gerir tilkall til að búa í "miðbænum" skrifar þá í yfirlætisfullum kvörtunartón um innrás "úthverfafólksins" eins og það sé ekki Reykvíkingar, og 101 sé ekki miðbær þess. Til eru fallegri bæjarmiðjur. Til dæmis í Hafnarfirði, sem kratar eyðilögðu að vísu með svo ljótu malli að það hlýtur að vera kennsluefni víða um heim; Stykkishólmur státar af fallegum miðbæ, Ísafjörður, Akureyri: en þegar maður kemur á þessa staði sér maður ekkert fólk, það er hugsanlega heima að baka eða í kaffi við eldhúsborðið hvert hjá öðru. En maður sér því bregða fyrir á jeppa að fara út í búð. Sem er dapurleg sjón. Íslendingar virðast ekki átta sig á því að til þess að upplifa það iðandi mannlíf sem þeir þrá þá neyðast þeir til að vera úti. 101 Reykjavík er innhverfi og þar er margs konar miðja – en er það "Miðjan"? Þar er saga og samhengi og skemmtilegt fólk - en er þetta miðborg? Kannast ekki allir við þann þanka þegar þeir hafa labbað niður Laugaveginn, að væri þetta ókunn borg þá væru þeir sífellt að hugsa um það hvenær þeir kæmu eiginlega inn í miðborgina? Í umræðum um skipulagsmál hættir fólki til að miða við Reykjavík eins og hún var í bókum Hendriks Ottóssonar um Gvend Jóns og félaga, vestan og austan lækjar – hitt sé "úti". Í þessari heimsmynd miðast borgarhliðin við gömlu gasstöðina við Hlemm. Menn láta sig þá dreyma um að ekki þurfi annað en að reisa ný og vegleg hús við Laugaveginn til að lokka fólkið "inn" aftur. Og Laugavegurinn fyllist þá á ný af fólki og stemmningin verði svipuð og þegar Kjörgarður státaði af eina rúllustiga landsins – fyrir utan Amaro á Akureyri. Því miður: 101 Reykjavík er úthverfi. Miðja verslunar og skemmtanahalds fyrir fjölskyldur er í Smáranum í Kópavogi. Á meðan fólk virðist líta svo á að um fjallveg sé að fara milli búða og treystir sér ekki öðruvísi en í jeppa milli húsa þá er Smárinn í Kópavogi miðjan: eitt stórt mall og svo breiðgötur á milli búða sem ekki má fara fótgangandi um: það er hingað sem búðirnar flýja. Hér líður McDonaldsi vel. Guðni Elísson skrifaði skemmtilega grein í Lesbókina á dögunum - eins og hann er vanur – og fjallaði um ljótleika Reykjavíkur. Þar er af nógu að taka. En þegar Guðni hættir sér austur fyrir Hlemmtjald verður bara fyrir honum hið óhugnanlega Múlahverfi og Grensásvegurinn sem er hin eina sanna Desolation Row okkar. Þetta er vissulega sú ömurlega Reykjavík þar sem allt er svo grátt en þar fyrir ofan er hið fallega Smáíbúðahverfi og veðursæll Fossvogurinn; við höfum líka Breiðholtið sem er mestanpart fallegur borgarhluti, fullur af grænum ilmi, kátum krökkum og hlýðnum hundum – við höfum Árbæinn sem fóstrað hefur svo margt snjallt fólk að þar hlýtur að vera gott að vera og við höfum ný hverfi þar sem sérhver gata er spennandi landnám. Úthverfin í Reykjavík eru fín og mönnum sæmst að hætta að hnýta í þau. Fólk kemst af án þess að fara "niður í bæ" – það veit ekki einu sinni af því að það sé "úti". Sé ætlunin að Laugavegurinn blómstri sem verslunargata þarf að hætta að láta sig dreyma um að hann geti keppt við stóru möllin heldur á að lækka fasteignagjöldin þar, afleggja með öllu hin fráleitu stöðumælagjöld, virða söguna og samhengið og leyfa raunverulegum arkítektum að teikna hús í eyðurnar en hleypa að skapandi fólki í litlu hreysin. Af ferköntuðum steinkumböldum er hins vegar enginn hörgull í Reykjavík. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Í 101 Reykjavík er margs konar miðja: þar býr margt skemmtilegt fólk og margt ríkt fólk og margt mjög einkennilegt fólk. Það er farsæl blanda. Þetta fólk býr í höllum eða hjöllum: það er líka fín blanda. Í 101 er eitthvað í loftinu. Þar skynjar maður titring af möguleika á því að þarna gæti þrifist mannlíf og þarna hafi þrifist mannlíf; hér á þessu horni hafi staðið Sæfinnur á sextán skóm á sínum tíma og Benedikt Gröndal á sínum, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Magnús Stephensen... í þessu hverfi er lágur ymur af sögu, þarna er samhengi sem mann langar til að skynja, þarna hefur alltaf verið sambýli höfðingja, smælingja og listamanna: þessi samsetning er inntak hverfisins. Almennt er 101 talið vera innhverfið: Gjörvallt Ísland er þá "úthverfin" og "úti á landi". Maður finnur þennan tón í skrifum 101-inga eftir menningarnótt. Fólkið sem gerir tilkall til að búa í "miðbænum" skrifar þá í yfirlætisfullum kvörtunartón um innrás "úthverfafólksins" eins og það sé ekki Reykvíkingar, og 101 sé ekki miðbær þess. Til eru fallegri bæjarmiðjur. Til dæmis í Hafnarfirði, sem kratar eyðilögðu að vísu með svo ljótu malli að það hlýtur að vera kennsluefni víða um heim; Stykkishólmur státar af fallegum miðbæ, Ísafjörður, Akureyri: en þegar maður kemur á þessa staði sér maður ekkert fólk, það er hugsanlega heima að baka eða í kaffi við eldhúsborðið hvert hjá öðru. En maður sér því bregða fyrir á jeppa að fara út í búð. Sem er dapurleg sjón. Íslendingar virðast ekki átta sig á því að til þess að upplifa það iðandi mannlíf sem þeir þrá þá neyðast þeir til að vera úti. 101 Reykjavík er innhverfi og þar er margs konar miðja – en er það "Miðjan"? Þar er saga og samhengi og skemmtilegt fólk - en er þetta miðborg? Kannast ekki allir við þann þanka þegar þeir hafa labbað niður Laugaveginn, að væri þetta ókunn borg þá væru þeir sífellt að hugsa um það hvenær þeir kæmu eiginlega inn í miðborgina? Í umræðum um skipulagsmál hættir fólki til að miða við Reykjavík eins og hún var í bókum Hendriks Ottóssonar um Gvend Jóns og félaga, vestan og austan lækjar – hitt sé "úti". Í þessari heimsmynd miðast borgarhliðin við gömlu gasstöðina við Hlemm. Menn láta sig þá dreyma um að ekki þurfi annað en að reisa ný og vegleg hús við Laugaveginn til að lokka fólkið "inn" aftur. Og Laugavegurinn fyllist þá á ný af fólki og stemmningin verði svipuð og þegar Kjörgarður státaði af eina rúllustiga landsins – fyrir utan Amaro á Akureyri. Því miður: 101 Reykjavík er úthverfi. Miðja verslunar og skemmtanahalds fyrir fjölskyldur er í Smáranum í Kópavogi. Á meðan fólk virðist líta svo á að um fjallveg sé að fara milli búða og treystir sér ekki öðruvísi en í jeppa milli húsa þá er Smárinn í Kópavogi miðjan: eitt stórt mall og svo breiðgötur á milli búða sem ekki má fara fótgangandi um: það er hingað sem búðirnar flýja. Hér líður McDonaldsi vel. Guðni Elísson skrifaði skemmtilega grein í Lesbókina á dögunum - eins og hann er vanur – og fjallaði um ljótleika Reykjavíkur. Þar er af nógu að taka. En þegar Guðni hættir sér austur fyrir Hlemmtjald verður bara fyrir honum hið óhugnanlega Múlahverfi og Grensásvegurinn sem er hin eina sanna Desolation Row okkar. Þetta er vissulega sú ömurlega Reykjavík þar sem allt er svo grátt en þar fyrir ofan er hið fallega Smáíbúðahverfi og veðursæll Fossvogurinn; við höfum líka Breiðholtið sem er mestanpart fallegur borgarhluti, fullur af grænum ilmi, kátum krökkum og hlýðnum hundum – við höfum Árbæinn sem fóstrað hefur svo margt snjallt fólk að þar hlýtur að vera gott að vera og við höfum ný hverfi þar sem sérhver gata er spennandi landnám. Úthverfin í Reykjavík eru fín og mönnum sæmst að hætta að hnýta í þau. Fólk kemst af án þess að fara "niður í bæ" – það veit ekki einu sinni af því að það sé "úti". Sé ætlunin að Laugavegurinn blómstri sem verslunargata þarf að hætta að láta sig dreyma um að hann geti keppt við stóru möllin heldur á að lækka fasteignagjöldin þar, afleggja með öllu hin fráleitu stöðumælagjöld, virða söguna og samhengið og leyfa raunverulegum arkítektum að teikna hús í eyðurnar en hleypa að skapandi fólki í litlu hreysin. Af ferköntuðum steinkumböldum er hins vegar enginn hörgull í Reykjavík.