Gagnrýni

Hinn vælandi Alexander

Egill Helgason skrifar
Háskólabíó: Alexander mikli





Oliver Stone býður upp á hinn vælandi Alexander. Samt finnst manni að Stone hafi haldið að hann væri að gera listaverk - honum er svo mikið í mun að sýna hvað er að brjótast um í huga Alexanders að herkonungurinn mikli er háfkjökrandi allan tímann. Flatneskjulegt málæðið í myndinni er yfirgengilegt. Hvernig maður af þessu tagi náði að draga her með sér út á heimsendi er ráðgáta sem fyrr - maður er nákvæmlega engu nær eftir að hafa horft á myndina. Fremur mætti mæla með bókinni - á íslenskri tungu eigum við til dæmis Alexanders sögu Brands ábóta frá þrettándu öld.



Það kemur svosem ekki á óvart að Stone hafi valið sér þetta efni; í honum hefur alltaf bærst nietzscheísk stórmennisdýrkun, hrifning á mönnum sem brjóta reglur. Flottasta persóna í mynd eftir hann er og verður verðbréfaþrjóturinn Gordon Gekko í Wall Street. Vandinn er bara sá að í þetta sinn misheppnast þetta alveg hjá honum. Colin Farrell er hræðilegur í hlutverki Alexanders - með írskan hreim og strípur í hári. Maður efast um að ferill hans nái sér eftir þetta. Angelina Jolie, sem leikur móður hans, talar með rússneskum hreim en leikur alveg jafn illa.



Undirliggjandi er svo ástarsaga milli Alexanders og félaga hans af karlkyni. Þar örlar ekki á neinum tilfinningum eða ástríðuhita, enda er ástin ekki sýnd með öðru en löngum og meiningarfullum augnagotum. Þarna hefur Stone tekist að ganga of langt fyrir landa sína sem vilja ekki sjá hommaskap í kvikmyndum, en ekki nógu langt til að verði eitthvað vit í þessu. Þetta verður bara teprulegt og langdregið.



Maður gæti afsakað þetta ef það væri minisería á Hallmark, en sem stórmynd frá frægum leikstjóra - nei.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×