Erlent

Stjórnvöld vissu af listanum

Embættismenn í utanríkisráðuneytinu og forsætisráðuneytinu vissu af "lista hinna 30 staðföstu þjóða" þegar ákvörðunin um stuðning Íslendinga við innrásina í Írak var tekin 18. mars 2003. Framsóknarmenn hafa þó til þessa haldið því fram að með ákvörðuninni hafi ekki verið að samþykkja veru Íslands á listanum. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra staðhæfir á heimasíðu sinni í gær að ekki hafi falist í ákvörðuninni við stuðninginn að Ísland yrði sett á lista hinna staðföstu þjóða. "Spurningin var ekki hvort Ísland vildi vera á einhverjum lista." Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagði í Fréttablaðinu í fyrradag: "Þessi 30 þjóða listi er auðvitað tilbúningur eftir á sem var að sjálfsögðu til í Washington. Menn voru ekkert að setja sig á þennan lista." Pétur Gunnarsson, skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, sagði 14. janúar síðastliðinn í pistli sínum á tímanum.is, málgagni Framsóknarflokksins: "Það var engin pólitísk ákvörðun íslenskra stjórnvalda sem lá að baki því að nafn Íslands var skráð á þann lista [...]. Á því bera íslensk stjórnvöld ekki ábyrgð [...]." Þetta er ekki rétt. Á fundi utanríkismálanefndar 21. mars 2003, þremur dögum eftir að ákvörðunin um stuðning Íslendinga við innrásina var tekin, óskaði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skýringa á því hvernig það hafi komið til að Ísland lenti á lista yfir hin "30 staðföstu ríki" og hvernig það hafi farið fram. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði það hafa gerst í samtölum milli embættismanna í forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti 18. mars. Samkvæmt þessu má því ráða að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafi vitað þá þegar 18. mars 2003 að með því að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak væri nafn Íslands þar með komið á lista hinna staðföstu þjóða. Fréttablaðið hefur óskað eftir viðtali við forsætisráðherra um þetta mál daglega frá því á mánudag. Í gær ítrekaði fréttaritstjóri blaðsins þá beiðni við upplýsingafulltrúa forsætisráðherra. Forsætisráðherra hefur ekki orðið við beiðninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×