Fastir pennar

Menningarheimar Framsóknar

Menn eru farnir að kenna átökin milli manna í Framsóknarflokknum í Reykjavík við trúarbragðastyrjaldir eða átök milli menningarheima, enda eru slíkar skýringar nánast staðalbúnaður fréttaskýrenda í samhengi heimspólitíkurinnar. Þó varasamt sé að gera of mikið úr trúarbragðaáhrifum í þessum átökum, þá er felst vissulega ákveðinn sannleikskjarni í því, enda hafa sumir framsóknarmanna í borginni náð að koma sér upp baklandi meðal trúaðra og sérsafnaða með gott skipulag. Góður aðgangur að skipulagi er jú dýrmæt auðlind í reykvískum stjórnmálum, ekki síst í Framsóknarflokknum og skiptir þá ekki máli hvort það skipulag tengist trú, íþróttum, menningu eða öðru. Hitt er að sönnu rétt líka að vissulega má segja að átökin milli Alfreðs Þorsteinssonar annars vegar og núverandi gagnrýnenda hans með Gest Kr. Gestsson í fararbroddi hins vegar geti kallast árekstur menningaheima. Þessum menningarheimum hefur hins vegar lostið saman áður, t.d. í prófkjöri framsóknarmanna fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar þegar þær tókust á með skipulagskerfum sínum. Gagnrýnendur Alfreðs náðu þá að koma Alfreð í opna skjöldu og eins og Gestur Kr. þreytist ekki á að rifja upp, þá munaði minnstu að Alfreð dytti út í prófkjörinu. Mjög ólíklegt er að slíkt muni gerast aftur - enda á Alfreð sinn hulduher líka. Hins vegar féllu í þessum vopnaviðskiptum margir óbreyttir gamalgrónir framsóknarmenn sem ekki voru hluti af skipulaginu - og fengu jafnvel ekki einu sinni að taka þátt í valinu. Nú hins vegar snýst spurningin ekki eingöngu um menn og menningarheima, heldur um þátttökuna í Reykjavíkurlistanum. Sú spurning á eftir að valda miklum viðbótarskjálftum í Framsókn, rétt eins og hún á eftir að valda Vinstri grænum miklum erfiðleikum og ekki síður Samfylkingunni. Samfylkingin stendur raunar frammi fyrir margfalt erfiðari málum en samstarfsflokkarnir, vegna þess að flokkurinn þarf samhliða ákvörðun um framhald R-listasamstarfsins að takast á við tvöfaldan foringjaslag. Annars vegar á landsvísu, milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar, og svo í borginni sjálfri milli núverandi oddvita Stefáns Jóns Hafstein annars vegar og svo Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur núverandi borgarstjóra. Telja verður mjög ólíklegt að þessi mál verði leyst í sátt og innanflokksátök í einum samstarfsflokki R-listans dregur úr sjarma samstarfsins í augum hinna. Innri ágreiningur í tveimur flokkum dregur enn úr sjarmanum og ágreiningur í þeim öllum gerir það beinlínis fráhrindandi. Ekki er að efa að gagnrýnendur Alfreðs, sem ekki einvörðungu vilja Alfreð burt heldur líka Reykjavíkurlistann, geri sér grein fyrir þessu. Átökin hjá Framsókn í Reykjavík um framtíð Reykjavíkurlistann og ákveðna menn þar tengist með sérstökum hætti samspili sveitarstjórnarpólitíkur og landsmálapólitíkur. Þetta má rekja til þess að framsóknarmenn í Reykjavík fóru þá leið að starfa í tveimur aðskildum kjördæmasamböndum í sveitarfélaginu Reykjavík. Þó að Reykjavík hafi verið skipt upp í tvö kjördæmi, er hún áfram eitt sveitarfélag. Framsóknarmenn í borginni starfa hins vegar í tvennu lagi, norðurkjördæminu og suðurkjördæminu, sem getur skapað vandamál. Á þetta hefur Gunnlaugur Júlíusson m.a. bent á vefsíðu framsóknarmanna í Reykajvík. Það sem hann hins vegar ekki dregur fram, er að samhliða kjördæmaskiptingunni hefur innan flokksins orðið vísir að pólitískri skiptingu milli kjördæma. Alfreð starfar í suðurkjördæminu - Gestur Kr. í norður. Mikilvægara er að bæði Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon starfa með norðurkjördæminu og þeir hafa báðir haft efasemdir með R-listann. Í suðurkjördæminu er hins vegar Jónína Bjartmarz þingmaður og hún hefur ekki marserað í þeim takti sem formaðurinn hefði kosið sem kunnugt er. Áberandi óánægja kom fram hjá forustu suðurkjördæmisins vega ráðherramála og menn þar hafa talið að gengið hafi verið fram hjá þingmanni kjördæmisins. Í fjölmiðlamálinu í sumar var gerð landsfræg uppreisn gegn flokksforustunni á fundi í suðurkjördæminu og Alfreð var eftir þann fund með óvenju harða gagnrýni á forustuna. Stjórn norðurkjördæmisins studdi forustuna. Það er því óhætt að fullyrða að það eru ekki einvörðungu skipulagslegar markalínur milli kördæma hjá Framsókn í Reykjavík, heldur líka pólitískar. Vegna þess hvernig þessar markalínur liggja er hugsanlegt að þær muni skipta talsverðu máli í þeim átökum sem nú eru að koma upp milli manna og menningarheima vegna framboðsmála og framhalds R-listans.





×