Innlent

Borgin skoði kaupin á Skjá einum

Tillögu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins um að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 1998 og að lagt verði mat á arðsemi þessara fjárfestinga var vísað frá á fundi borgarstjórnar í gær. Þess í stað var samþykkt tillaga R-listans að borgarstjóra verði falið að láta gera óháð úttekt á fjárfestingum fyrirtækja í opinberri eigu í fjarskiptafyrirtækjum, frá árinu 1998. Er þar innifalið að gera úttekt á fjárfestingum Landsvirkjunar í Fjarska og kaup Símans á Skjá einum. Í fyrri tillögu Sjálfstæðismanna var vísað til fjárfestinga Orkuveitunnar í fyrirtækjunum Línu.net, Tetra Ísland og Rafmagnslínu. Fram kom í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem bar tillöguna fram að framlög Orkuveitunnar vegna þessa fjárfestinga frá árinu 1998 séu um 4.6 milljarðar. Kom fram í máli R-listans að tillagan, sem Alfreð Þorsteinsson bar upp, gengi lengra en tillaga Sjálfstæðisflokksins og því þyrfti ekki að greiða atkvæði um tillögu sjálfstæðismanna. Þessu andmæltu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór. Þeir sögðu tillögu R-listans vera allt annað en breytingartillögu og ekki framkvæmanlega, þar sem það væri ekki í valdi borgarstjóra að gera útttekt á öðrum opinberum fyrirtækjum en þeim sem eru í eigu Reykjavíkurborgar. Í máli Alfreðs Þorsteinssonar kom fram að tillaga Guðlaugs Þórs gengi ekki upp, þar sem Orkuveita Reykjavíkur væri sameignarfélag fjögurra sveitarfélaga með innri endurskoðun. Því væri það óeðlilegt að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar tæki að sér slíkt verkefni. Guðlaugur Þór sagði það vel hægt ef pólitískur vilji væri fyrir hendi. Alfreð sakaði Guðlaug Þór einnig um að ganga erinda Símans í þessu máli, þar sem fjárfestingar Símans í koparlínum myndu rýrna verulega vegna lagningu ljósleiðara. Með tillögu R-listans væri hægt að fá samanburð á fjárfestingum Orkuveitunnar annars vegar og fjárfestinga fyrirtækja í eigu ríkisins hins vegar. Þessu andmælti Guðlaugur harðlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×