Skoðun

Grunnnetið verði sérfyrirtæki

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Framundan er sala Landssímans. Ákveðið var fyrir nokkrum árum að koma á samkeppni á fjarskiptamarkaði með þeim rökum að samkeppnin tryggði neytendum lægra verð og betri þjónustu. Eignarhald ríkisins gefur forskot á fyrirtæki sem eru í einkaeigu og því er talið nauðsynlegt að ríkið selji Landssímann til þess að jafnræði geti verið milli fyrirtækjanna sem keppa. En fleira kemur til sem getur torveldað samkeppni. Landssíminn hefur yfirburðastöðu á markaðnum með um 80% hlutdeild í almennri talsímaþjónustu og um 67% hlutdeild í fjarskiptakerfinu. Þessir yfirburðir Landssímans byggjast einkum á því að fyrirtækið á megnið af dreifikerfinu. Það er í einokunaraðstöðu hvað varðar koparnetið og þar með aðgang að heimtaug til notandans. Svipað er um ljósleiðaranetið, en þar er samkeppni aðeins á höfuðborgarsvæðinu, norður til Akureyrar og til Vestmannaeyja. Annars staðar er Landssíminn einn um að veita þjónustu með ljósleiðara. Fyrirtæki sem vilja keppa við Landssímann verða að fá greiðan aðgang að dreifikerfi Símans á sanngjörnu verði.

Þarna er fyrirsjáanlegt að verði árekstrar milli fyrirtækja í samkeppni, enda er það svo. Stærsta fyrirtækið sem er í samkeppni við Landssímann, Og Vodafone, kvartar undan þjónustunni og telur að auki erfitt að staðreyna hvort verðlagning á aðgangi að heimtaugum sé byggð á raunkostnaði. Bendir fyrirtækið á að jafn aðgangur að grunnnetinu og rétt verðlagning sé forsenda samkeppni á smásölumarkaði á landsvísu. Í erindi til Alþingis, sem er umsögn um þingmannafrumvarp er varðar sölu Landssímans, gengur Og Vodafone svo langt að segja að það sé álit fyrirtækisins að verði eignarhaldi á grunnnetinu ekki komið fyrir í sérstöku fyrirtæki, sem selji aðgang að netinu til allra aðila á markaði á sömu kjörum og á sömu forsendum muni aldrei verða raunveruleg samkeppni á fjarskiptamarkaði. Ástæðan er einföld: hér á landi háttar svo til að aðeins er til eitt heildstætt grunnnet og fyrirtæki sem vilja veita talsímaþjónustu eða DSL þjónustu eiga ekki annarra kosta völ en að semja við keppinaut sinn, Landssíma Íslands hf., um aðgang að grunnnetinu. Og Vodafone telur að það geti verið þrjár leiðir í útfærslunni: grunnnetið verði áfram í eigu ríkisins, grunnnetið verði selt sama aðila og kaupir Landssímann en verði í sérfyrirtæki og með algerlega aðskilinn rekstur og í þriðja lagi að grunnnetið verði sérstakt félag, sem geti verið í eigu ríkisins og annarra sem kaupa þjónustu af grunnnetinu.

Benda má á að þegar sett var löggjöf um samkeppni í raforkukerfinu, var samkeppnin einskorðuð við sölu og framleiðslu á rafmagni, enda ekki talið hægt að koma við samkeppni í flutningi og dreifingu rafmagns. Var stofnað sérstakt hlutafélag um flutninginn sem er í eigu helstu framleiðenda rafmagns. Það fyrirkomulag á að tryggja jafnræði í aðgengi að kaupendunum og er því að verulegu leyti forsenda þess að samkeppni verði í kerfinu. Hví skyldu gilda einhver önnur lögmál í fjarskiptakerfinu?

Og Vodafone telur að sérfyrirtæki um grunnnetið myndi leiða af sér betri þjónustu um landið, þar sem fremur yrði lögð áhersla á að bæta fjarskiptin í hinum dreifðum byggðum landsins. Það væri hagur dreifingarfyrirtækisins að sjá til þess að netið næði til allra landsmanna, bæði hvað varðar talsímaþjónustu og gagnaflutninga. Þetta eru frekari rök fyrir sérfyrirtæki um grunnnetið. Ljóst er að víða um land er veruleg óánægja með frammistöðu Landssímans síðustu árin eftir að fyrirtækið hætti að líta á sig sem þjónustufyrirtæki og fór að einbeita sér að því að hámarka hagnaðinn til skamms tíma litið. GSM- símakerfið er orðið mikilvægt öryggistæki en víða á vegum landsins er símasamband ekki til staðar. Þá eru góð fjarskipti oft forsenda þess að atvinnulíf og afþreyingarmöguleikar geti þróast með svipuðum hætti sem víðast á landinu. Öllu lengur má ekki dragast að sýnilegt verði að pólitískur vilji er til staðar að veita góða þjónustu um land allt. Ég fer ekki leynt með þá skoðun mína að hafa eigi grunnnetið í sérfyrirtæki og að það fyrirkomulag sé líklegt til þess að tryggja góða þjónustu og samkeppnina sem að er stefnt. Álit Og Vodafone styður þau sjónarmið og hefur mikið gildi vegna þess að fyrirtækið er starfandi á þessum markaði. Áður en Landssíminn verður seldur þarf að leiða þessa umræðu til lykta.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×