Innlent

Beindi byssu að bílstjóranum

Kona vopnuð byssu reyndi að ræna leigubílstjóra við Grensásveg skömmu fyrir klukkan átta í gærkvöld. Leigubílstjórinn náði að yfirbuga konuna, sem hann telur vera rúmlega þrítuga, og hélt henni þar til lögreglan kom og handtók hana.

"Ég tók konuna upp í bílinn fyrir utan Nordica hótel," segir leigubílstjórinn. "Hún bað mig að keyra sig að sólbaðsstofu við Grensásveg og þegar við komum þangað bað hún mig að leggja bílnum á bílaplaninu. Þá spyr hún hvort ég eigi einhverja skipti­mynt. Ég játaði því. Þá spurði hún hvort hún mætti ekki gera mér einhvern kynferðislegan greiða í skiptum fyrir peninga. Ég harðneitaði því."

Leigubílstjórinn segir að eftir að hann hafi neitað hafi hún skyndilega breytt um tón og sagt að þetta væri vopnað rán.

"Hún hafði aðra höndina allan tímann í vasanum og skyndilega sá ég glytta í byssu. Ósjálfrátt tók ég í höndina á henni og náði af henni byssunni. Ég hringdi strax í lögregluna en hélt konunni í bílnum. Eftir tuttugu mínútur komu nokkrir lögreglubílar og sérsveitarmenn. Í kallkerfi var konan beðin um að stíga út og leggjast á jörðina. Því næst var hún handtekin."

Leigubílstjórinn segist hafa orðið reiður því á meðan hann hafi beðið eftir lögreglunni hafi þau rætt saman. Hún hafði verið gráti næst, sagst eiga son og þau ættu mjög erfitt.

"Ég lofaði henni að það yrðu engin læti. Ég var með lögregluna í símanum allan tímann ­ þannig að hún vissi hvað fór okkar á milli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×