Innlent

Réttargeðdeildin byggð upp

Rósuskjól. Nýtt gróðurhús var vígt á Sogni í gær. Viðstaddir voru meðal annarra Rósa Kristmundsdóttir, Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og Björgólfur Guðmundsson.
Rósuskjól. Nýtt gróðurhús var vígt á Sogni í gær. Viðstaddir voru meðal annarra Rósa Kristmundsdóttir, Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og Björgólfur Guðmundsson.

Starfshópur hefur verið skipaður af heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, til að huga að uppbyggingu á réttargeðdeildinni á Sogni. Ráðherra greindi frá þessu í heimsókn sinni á Sogni í gær þar sem hann kynnti sér starfsemina og aðstæður allar.

"Sú þróun virðist vera í dómum núna að fleiri eru dæmdir ósakhæfir heldur en áður," segir ráðherra. Mikil þrengsli hafa verið á Sogni að undanförnu og átta öryggisgæslusjúklingar dvalið í sjö plássum. "Við ætlum að athuga hvernig við getum mætt þessari þróun og hvort og hvernig við þurfum að stækka þarna," bætir ráðherra við og segist líta svo á að öryggisgæsludeildin verði áfram á Sogni.

Með heilbrigðismálaráðherra í för voru Björgólfur Guðmundsson, formaður bankaráðs Landsbankans, og Rósa Kristmundsdóttir. Rósa beitti sér fyrir stofnun Kærleikssjóðs Sogns á sínum tíma og tók Landsbankinn að sér að ávaxta og sjá um sjóðinn. Rósa vígði í gær nýtt gróðurhús sem komið hefur verið upp á Sogni til að gefa vistmönnum kost á stunda ræktunarstarf, en gróður­húsinu hefur verið gefið nafnið Rósuskjól í virðingarskyni við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×