Lífið

Beiðni Fischers tekin til skoðunar

Chieko Nohno, dómsmálaráðherra Japans, féllst í gær á að taka til skoðunar beiðni skákmeistarans Bobbys Fischer um að fá að fara til Íslands í stað þess að vera vísað úr landi til Bandaríkjanna. "Almennt talað yrði áfangalandið Bandaríkin, kæmi til þess að honum verði vísað úr landi. En við munum hugleiða óskir hans og hvort annað land vilji taka við honum þegar ákvörðun um brottvísun verður tekin," sagði Nohno. Japönsk yfirvöld segja fólk sem vísað er úr landi yfirleitt sent til upprunalands síns, nema í sérstökum undantekningartilvikum. Fischer hefur verið í haldi í Japan síðan í júlí, þegar hann reyndi að yfirgefa landið með vegabréf sem bandarísk yfirvöld höfðu ógilt. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, segir léttara í honum hljóðið eftir yfirlýsingu dómsmálaráðherrans. "Bobby vill endilega að við förum að koma," segir hann, en með því telur Fischer að þrýstingur á japönsk stjórnvöld um að heimila Íslandsförina yrði meiri. "En ég held samt að við látum hátíðina líða, enda lítið vit að fara að hangsa á hóteli meðan mál eru ekki fastari á hendi en þetta."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.