Erlent

Mikil spenna í Mósúl

Mikil spenna er í borginni Mósúl í Írak sem er í herkví eftir að tuttugu og tveir létust þar í sjálfsmorðssprengjuárás í gær. Óttast er að uppreisnarmenn hyggi á nýja hrinu árása. Bandarískar hersveitir lokuðu fyrir umferð um helstu brýr og umferðaræðar í Mósúl í morgun. Hermenn réðust inn á heimili og skrifstofur um alla borgina í leit að mönnunum sem stóðu á bak við árás á bandaríska herstöð í gær sem kostaði fjórtán bandaríska hermenn, fjóra óbreytta Bandaríkjamenn og fjóra írakska þjóðvarðliða lífið. Íbúar í borginni segja ekki sálu á götum úti og að þriðja stærsta borg Íraks sé eins og draugabær. Upphaflega sögðu talsmenn hersins að sprengjum hefði verið varpað á messatjaldið á herstöðinni en nú bendir allt til þess að maður hafi sprengt sig í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum. Hópur róttækra múslíma, Ansar al-Islam, lýsti tilræðinu á hendur sér. Þetta er mannskæðasta árás á bandaríska herstöð frá upphafi stríðs og hún vekur ótta um frekari árásir uppreisnarmanna í aðdraganda kosninganna í janúar. Að ringulreið og stjórnleysi einkenni nú Mósúl, sem fyrir rúmum mánuði var með rólegustu borgum Íraks, segir einnig sitt um ástandið í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×