Lífið

Dreki, Jaki og Bessi

Erla Sólveig Óskarsdóttir er ein af okkar fremstu húsgagnahönnuðum. Hún hefur selt hönnun sína víða um heim. Erla Sólveig hefur fengist við ýmsa ólíka hönnun en eflaust eru stólarnir hennar hvað þekktastir enda hafa þeir hvarvetna vakið verðskuldaða athygli og selst mjög vel. Stólinn Dreka hannaði Erla Sólveig árið 1998. Hann er til í mörgum litum, er staflanlegur og hentar því vel á veitingastaði eða kaffihús. Svo vinsæll hefur þessi stóll verið að nú er komin eftirlíking af honum sem er fjöldaframleidd í Kína. Jaki er tignarlegur stóll úr spónlögðum kirsuberjaviði eða hlyn, grindin er úr krómuðu stáli og armarnir eru úr svörtu pólýúrítan. Stóllinn hentar vel sem borðstofustóll en hefur líka verið vinsæll í ráðstefnusali. Bessa kynnti Erla Sólveig á Skandinavísku húsgagnahátíðinni árið 2001 þar sem hann vakti mikla athygli fyrir klassíska og einfalda hönnun. Bessi er samsettur úr stálgrind og bólstruðu sæti, en einnig er hægt að fá sætið úr viði og lakkað. Stólarnir hennar Erlu Sólveigar fást í Epal, Skeifunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.